Sveitarfélög landsins gætu farið á mis við útsvartekjur sem nema 15 milljörðum króna vegna séreignarsparnaðarleiðar ríkisstjórnar Íslands, sem heimilar fólki að nýta séreignarsparnað sinn skatt- og útsvarsfrjálst í niðurgreiðslu húsnæðislána. Þrátt fyrir vilyrði um að sveitarfélögum landsins verði bætt þetta tekjutap hefur ekki verið samið um neitt slíkt. Þetta kemur fram í minnisblaði um áhrif aðgerðanna sem Samband íslenskra sveitarfélaga hefur unnið og var kynnt í borgarráði Reykjavíkur í morgun og Kjarninn hefur undir höndum.
Þar kemur fram að núgildandi ráðstöfun séreignarsparnaðar í niðurgreiðslu húsnæðislána, sem gildir frá miðju ári 2014 og út júní á næsta ári, kostar sveitarfélög landsins samtals 4,8 milljarða króna. Það er sá hluti aðgerðanna sem kynntar voru sem hluti „Leiðréttingarinnar“ fyrir rúmum tveimur árum síðan. Tekjutap sveitarfélaganna yrði mun meira ef nýting á aðgerðinni væri í takt við það sem lagt var upp með, en við kynningu á henni kom fram að búist væri við að Íslendingar myndu nota 70 milljarða króna af séreignarsparnaði til að lækka skuldir sínar. Nú þegar rúmlega 2/3 hluti af gildistíma aðgerðarinnar er liðinn er samanlögð greiðsla séreignarsparnaðar inn á húsnæðislán vegna aðgerðarinnar þó einungis um 24 milljarðar króna.
„Fyrsta fasteign· eykur tekjutap sveitarfélaga
Á mánudag kynnti ríkisstjórnin viðbótarúrræði þar sem fólk er gert kleift að nota séreignarsparnað sinn til að greiða niður húsnæðisskuldir. Annað þeirra úrræða snýst um að lengja „Leiðréttingar“-tímabilið sem allir séreignarsparendur geta nýtt sér fram á mitt ár 2019. Hitt snýst um að fyrstu fasteignakaupendur geti notað séreignarsparnað skatt- og útsvarsfrjálst í tíu ár til að borga niður lán, safna sér fyrir húsnæði eða niðurgreiða afborganir. Í minnisblaðið Sambands íslenskra sveitarfélaga segir að framlenging úrræðisins muni kosta sveitarfélög landsins samtals 3,2 milljarða króna í tapaðar útsvarstekjur og að úrræðið „Fyrsta fasteign“ muni kosta 7,2 milljarða króna yfir tíu ára tímabil. Samtals muni sveitarfélög landsins því fara á mis við útsvarstekjur upp á 15 milljarða króna vegna séreignarsparnaðaraðgerða ríkisstjórnarinnar.
Sveitarfélögin una ekki bótaleysi
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík, fjallar um málið í stöðuuppfærslu á Facebook. Þar bendir hann á að tapið dreifist víða. „Hlutfallslega mest tap er í Kópavogi, Hafnarfirði og Mosfellsbæ. Hlutfallslega mikið tap Grýtubakkahrepps vekur reyndar sérstaka athygli. Sem dæmi má nefna að borgin verður af meira en 600 mkr króna útsvarstekjum í fyrra vegna þessa. Ljóst er að sveitarfélögin í landinu munu ekki una því að þetta verði ekki bætt, líkt og lýst hefur verið yfir.“
Dagur á þar við yfirlýsingar Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, um að útsvarstap sveitarfélaga yrði bætt. Það hafi ekki gengið eftir.