Þingflokkur Bjartrar framtíðar vill að kosið verði um áframhald á aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið samhliða þingkosningum í lok október. Flokkurinn lagði fram þingsályktunartillögu þess efnis á Alþingi í dag.
Páll Valur Björnsson þingmaður er fyrsti flutningsmaður tillögunnar en allur þingflokkurinn flytur tillöguna í sameiningu. Samskonar tillaga var lögð fram á siðasta löggjafarþingi, en aðeins dagsetningunni hefur verið breytt.
„Alþingi ályktar að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla 29. október 2016 um hvort halda skuli áfram aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið. Eftirfarandi spurning verði borin upp í þjóðaratkvæðagreiðslunni:
„Vilt þú að Ísland taki upp þráðinn í viðræðum við Evrópusambandið með það að markmiði að gera aðildarsamning sem borinn yrði undir þjóðina til samþykktar eða synjunar?
Já
Nei.““