Ríkisendurskoðun vinnur að úttekt á allri sölu Landsbankans á eignum frá árinu 2010 og fram til dagsins í dag. Ástæða úttektarinnar er Borgunarmálið og beiðnir frá þingmönnum, Bankasýslu ríkisins og Landsbankanum sjálfum um að stofnunin tæki alla eignasölu bankans til skoðunar. Þetta kemur fram í DV í dag.
Þar er haft eftir Steinþóri Pálssyni, bankastjóra Landsbankans, að Ríkisendurskoðun sé endurskoðandi Landsbankans og að bankinn hafi sjálfur óskað eftir því að hún fari yfir sölu á hlutum bankans í Borgun. „ Ríkisendurskoðun taldi rétt að kanna eignasölu bankans 2010–2016 og rökstuddi þá ákvörðun með tilteknum hætti. Það er ekki óeðlilegt að slík skoðun fari fram, meðal annars vegna umræðu um eignasölu bankans.“
Skýrslu um aðalúttekt Ríkisendurskoðunar verður send Alþingi í nóvember. Horft verður sérstaklega til verkferla og reglna við eignasölu sem fóru fram fyrir luktum dyrum, líkt og salan á Borgun fór fram. Íslenska ríkið á 98,2 prósent hlut í Landsbankanum og Ríkisendurskoðun mun reyna að svara því hvort vinnulag hafi verið í samræmi við eigendastefnu ríkisins, sé til þess fallið að treysta orðspor bankans og auka hag hans.
Landsbankinn hefur afhent ýmis gögn um eignasölu á umræddu tímabili til Ríkisendurskoðunar í sumar. Áður hafði hann gert grein fyrir sölu allra eigna þar sem söluandvirðið var meira en einn milljarður króna í svari til Bankasýslu ríkisins þann 11. febrúar síðastliðinn. Þær upplýsingar eru þó ekki mjög ítarlegar.
Ein umdeildasta eignasala eftirhrunsáranna
Landsbankinn seldi 31,2 prósent hlut sinn í Borgun til félags í eigu stjórnenda fyrirtækisins og meðfjárfesta þeirra þann 25. nóvember 2014 fyrir 2,2 milljarða króna. Fjárfestahópurinn gerði fyrst tilboð í hlutinn í mars 2014. Hlutur Landsbankans, sem er að mestu í ríkiseigu, var ekki seldur í opnu söluferli. Öðrum mögulega áhugasömum kaupendum bauðst því ekki að bjóða í hlutinn. Kjarninn upplýsti um það þann 27. nóvember 2014 hverjir hefðu verið í fjárfestahópnum og hvernig salan hefði gengið fyrir sig.
Í janúar var greint frá því að kaup Visa Inc. á Visa Europe gætu skilað Borgun og öðru íslensku greiðslukortafyrirtæki, Valitor, á annan tug milljarða króna. Landsbankinn átti hlut í bæði Borgun og Valitor. Þegar bankinn seldi hlut sinn í Borgun gerði hann ekki samkomulag um hlutdeild í söluandvirði Visa Europe. Þegar hann seldi hlut sinn í Valitor í apríl 2015 gerði hann samkomulag um viðbótargreiðslu vegna þeirrar hlutdeildar Valitor í söluandvirði Visa Europe. Stjórnendur Borgunar hafa sagt að þeir hafi fyrst fengið upplýsingar um hugsanlegan ávinning fyrirtækisins vegna sölunnar á Þorláksmessu 2015.
Í júlí var greint frá því að greiðslur vegna valréttarins hefðu borist Borgun og Valitor. Þá kom fram að greiðslurnar, sem fóru fram í reiðufé, hefðu verið hærri en upphafleg stóð til þar sem fallið hafði verið frá afkomutengdri greiðslu sem taka átti mið af afkomu Visa Europe næstu fjögur árin. Upphaflega átti reiðufés-greiðslan til Borgunar að vera 4,6 milljarðar króna, en nú er ljóst að hún var hærri.
Stjórnendur Borgunar hafa ætið vísað ásökunum á hendur sér á bug og í febrúar sögðu þeir að „alvarlegar ásakanir bankastjórans um meint lögbrot annarra í þessu máli má sjálfsagt skoða í ljósi þeirrar erfiðu stöðu sem Landsbankinn er kominn í. Stjórnendur Borgunar frábiðja sér með öllu að vera gerðir að blórabögglum í þessu máli.“
Borgun hefur greitt eigendum sínum þrjá milljarða í arð fyrir rekstrarárin 2014 og 2015. Á aðalfundi Borgun fyrr á þessu ári var ákveðið að greiða 2,2 milljarða í arð til hluthafa, vegna ársins 2015. Áður en kom til arðgreiðslunnar í fyrra, hafði ekki verið greiddur arður úr félaginu frá árinu 2007.
Höfnuðu rökum Landsbankans
Bankasýsla ríkisins, sem fer með eigendavald ríkisins í fjármálafyrirtækjum, birti í mars ítarlegt bréf sem það sendi bankaráði Landsbankans vegna Borgunarmálsins. Þar hafnaði hún nær öllum röksemdarfærslum sem Landsbankinn hefur teflt fram sér til varnar í málinu. Þar var enn fremur sagt að svör Landsbankans við þeirri gagnrýni sem sett hefur verið fram á framgöngu hans hafi „ekki verið sannfærandi“.
Borgunarmálið leiddi til þess að fimm af sjö bankaráðsmönnum í Landsbankanum gáfu ekki kost á sér til endurkjörs á aðalfundi bankans, sem haldinn var 14. apríl. Á meðal þeirra var Tryggvi Pálsson, formaður bankaráðsins. Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, neitaði hins vegar hætta störfum, en í yfirlýsingu frá bankaráðsmönnunum fimm var fullyrt að Bankasýsla ríkisins hafi farið fram á afsögn Steinþórs. Bankasýslan hafnaði því síðar að uppsögn Steinþórs hafi verið til skoðunar hjá henni.
Fyrir viku síðan tilkynnti Landsbankinn að bankaráð hans hefði ákveðið að höfða mál vegna sölunnar á hlut hans í Borgun. Það er mat bankaráðs að bankinn hafi farið á mis við fjármuni í viðskiptunum þar sem bankanum voru ekki veittar nauðsynlegar upplýsingar.