Á undanförnu ári hafa laun hækkað að meðaltali um 11,3 prósent. Launavísitalan í júlí 2016 var 581,9 stig og hækkaði um 0,1 prósent frá fyrri mánuði, samkvæmt tölum sem Hagstofa Íslands birti í dag. Síðastliðna tólf mánuði hefur launavísitalan hækkað um 11,3 prósent.
Kaupmáttur launa heldur áfram að aukast, og mælist hann nú um 10 prósent, horft til síðustu tólf mánaða. Almennt eykst kaupmáttur launa þegar laun hækka umfram verðlag en minnkar þegar verðbólga er meiri en launahækkanir.
Lykilatriði við að auka kaupmátt og styrkja þannig fjárhagslega stöðu fólks og heimila í landinu, hefur verið að halda verðbólgu í skefjum. Hún mælist nú 1,1 prósent og hefur haldist undir 2,5 prósent verðbólgumarkmiði Seðlabanka Íslands í meira en tvö ár.
Meginvextir Seðlabanka Íslands eru nú 5,75 prósent en Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands tilkynnir um vaxtaákvörðun á morgun, og benda flestar spár til þess að vöxtum verði áfram haldið óbreyttum, þrátt fyrir að raunvaxtastig sé í hæstu hæðum í alþjóðlegum samanburði. Þá hefur verðbólguspá Seðlabanka Íslands engan veginn gengið eftir, og verðbólga minnkað en ekki aukist mikið, eins og bankinn spáði.
Launavísitala er verðvísitala sem byggir á gögnum úr launarannsókn Hagstofu Íslands og sýnir breytingar á verði vinnustundar fyrir fasta samsetningu vinnutíma. Vísitalan tekur mið af breytingum reglulegra launa sem greidd eru fyrir umsaminn vinnutíma hvort sem um er að ræða dagvinnu eða vaktavinnu. Tekið er tillit til hvers konar álags-, bónus- og kostnaðargreiðslna sem gerðar eru upp á hverju útborgunartímabili. Hvorki er tekið tillit til tilfallandi yfirvinnu né óreglulegra greiðslna enda er í lögum um launavísitölu ætlast til að breytingar á vinnutíma og samsetningu hans hafi ekki áhrif á vísitöluna, að því er segir á vef Hagstofu Íslands.