Heiðrún Lind Marteinsdóttir lögfræðingur verður næsti framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi. Þetta kom fyrst fram á vef Viðskiptablaðsins, en SFS hefur nú staðfest ráðninguna. Hún hefur störf á næstu vikum.
Heiðrún Lind er héraðsdómslögmaður og hefur starfað á lögmannsstofunni Lex frá árinu 2006. Hún hefur starfað talsvert innan Sjálfstæðisflokksins.
Kolbeinn Árnason hætti sem framkvæmdastjóri samtakanna í apríl og tók sæti í stjórn gamla Landsbankans, LBI. Jens Garðar Helgason, formaður stjórnar Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, hefur gegnt starfinu á meðan leitað hefur verið að nýjum framkvæmdastjóra.
Á fjórða tug manns sóttu um starfið, að því er Jens Garðar sagði við Fréttablaðið fyrr í mánuðinum.