Forsætisráðuneytið neitar að afhenda Kjarnanum skýrslu um ástand húsa á Bessastöðum, bústað forseta Íslands. Ráðuneytið ber því við að ekki sé hægt að opinbera myndir og innréttingar, sem koma fram í skýrslunni, meðal annars vegna öryggissjónarmiða. Þá segir enn fremur í svarinu frá ráðuneytinu, að sést hafi ummerki um mygluvöxt á afmörkuðum svæðum og rakaskemmdir séu sjáanlegar.
Öryggissjónarmið og einkahagsmunir
Þetta kemur fram í svari Stefáns Thors, húsameistara ríkisins, við fyrirspurn Kjarnans um skýrslu sem unnin var um ástand húsa á Bessastöðum. „Forsætisráðuneytið telur sig ekki geta orðið við beiðni fjölmiðla um að afhenda skýrsluna vegna öryggissjónarmiða, sbr. 1. tölul. 10. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012, og einkahagsmuna, sbr. 9. gr. upplýsingalaga. Í skýrslunni eru teikningar af húsinu og ljósmyndir sem sýna hönnun og innréttingar sem ekki er talið forsvaranlegt að afhenda vegna öryggissjónarmiða. Þá er hér um að ræða íbúðarhúsnæði forseta Íslands og skýrslan unnin á meðan fyrrverandi forsetahjón [Ólafur Ragnar Grímsson og Dorrit Moussaieff] bjuggu í því. Upplýsingar í skýrslunni kunna þar af leiðandi að falla að einhverju marki undir 9. gr. upplýsingalaga,“ segir í svari ráðuneytisins.
Forsetahjónin Guðni Th. Jóhannesson og Eliza Jean Reid gátu ekki flutt inn í íbúðarhús forsetans þar sem sinna þurfti viðhaldi fyrst. Í svari Stefáns kemur fram að skemmdir á húsinu hafi meðal annars verið vegna raka og myglu. „Við úttekt mátti sjá vísbendingar um að þéttingar utan með gluggum væru farnar að gefa sig og ummerki um raka á parketi má líklega rekja til leka frá gluggum. Í ljós kom einnig að rakavörn á efri hæð er að hluta til óþétt auk þess sem loftun þaksins er sumsstaðar takmörkuð þar sem einangrun leggst alveg upp að borðaklæðningu. Sjá mátti ummerki um mygluvöxt á borðaklæðningu á afmörkuðum svæðum,“ segir í svari Stefáns.
Meta loftgæði
Enn fremur kemur fram að markmiðið með úttekt á húsinu hafi verið að meta loftgæði í helstu íverurýmum, og þá hvort raki og mygla væru að valda óheilbrigðu loft. „Markmið þeirrar úttektar á raka sem gerð var á húsinu var að meta loftgæði í helstu íverurýmum m.t.t. heilbrigðrar innivistar og kanna hvort rakavandamál væru til staðar. Íbúðarhús forseta Íslands á Bessastöðum var tekið í notkun árið 1996 og því ýmislegt sem þarf að yfirfara en almennt er það mat iðnaðarmanna sem vinna að lagfæringum að ástand hússins sé mjög gott. Það breytir auðvitað ekki því að það er ýmislegt sem þarf að gera. Á grundvelli skýrslu sérfræðinga er að hægt að afmarka þá staði sem þarf að lagfæra sérstaklega og verður m.a. gert við glugga. Það liggja ekki fyrir endanlegar niðurstöður ástand eða nauðsynlegar aðgerðir en þó staðfest að ekki hefur fundist fúi,“ segir í svari Stefáns.
Koma til móts við nýja tíma
Stefán segir ennfremur að unnið sé að endurbótum og breytingum á húsinu á Bessastöðum til að koma til móts við þarfir nýju forsetafjölskyldunnar sem nú flytur í húsið, en Guðni og Eliza eiga fjögur börn saman á leikskóla- og barnaskólaaldri. „Það er lögð áhersla á að vinna endurbætur á húsinu og koma í veg fyrir raka og myglu eins vel og kostur er en ljóst að það muni taka nokkrar vikur,“ segir í svari Stefáns.