Stjórn Vátryggingafélags Íslands (VÍS) hefur samið við Sigrúnu Rögnu Ólafsdóttur, forstjóra félagsins, um að láta af störfum. Þess í stað hefur Jakob Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Promens, verið ráðinn í starfið. Frá þessu er greint í tilkynningu til Kauphallar Íslands sem send var út í nótt. Sigrún Ragna var eina konan sem stýrði skráðu félagi á Íslandi. Nú er því enginn kona í slíku starfi, en alls eru 16 félög skráð á aðalmarkað Kauphallar Íslands.
Herdís Fjelsted, stjórnarformaður VÍS, segir ákvörðunina um forstjóraskiptin hafi verið tekna í gær. Þá hafi verið samið við Sigrúnu Rögnu um að hætta og Jakob ráðinn í kjölfarið. Herdís segir að engin ein ástæða sé fyrir forstjóraskiptunum. „Við töldum rétt að nýr aðili myndi koma að þessu. Það er ekkert eitt. Sigrún var búin að vera hjá VÍS í mörg ár á miklum umbrotatímum og hafði gert fullt af góðum hlutum.”
Sigrún Ragna mun ekki vera með frekari viðveru á skrifstofu VÍS en mun vera félaginu til halds og trausts á meðan að nýr forstjóri kemur sér inn í starfið. Aðspurð um hvort vænta megi stefnubreytingar með tilkomu nýs forstjóra segir Herdís að nýjar áherslur fylgi alltaf nýjum forstjórum.
VÍS birti í síðustu viku uppgjör sitt fyrir fyrstu sex mánuði ársins. Þar kom fram að hagnaður af rekstri félagsins hafi verið 238 milljónir króna á fyrri hluta árs samanborið við 1.419 milljónir króna árið áður. Helsta ástæða þess að hagnaðurinn dróst svona mikið saman er að tekjur af fjárfestingastarfsemi fóru úr 2.065 milljónum króna á fyrstu sex mánuðum ársins 2015 í 636 milljónir króna á sama tímabili í ár.
Mikill ólgusjór út af ætluðum arðgreiðslum
VÍS gekk í gegnum mikinn ólgusjó snemma á þessu ári ásamt öðrum skráðum tryggingafélögum í kjölfar þess að tilkynnt var um háar arðgreiðslur til eigenda þeirra. Tillögur stjórna þriggja stærstu tryggingafélaga landsins, VÍS, Tryggingarmiðstöð (TM) og Sjóvá, hljóðuðu upp á að greiða eigendum sínum samanlagt 9,6 milljarða króna í arð og kaupa af þeim hlutabréf upp á 3,5 milljarða króna. Þessar tillögur mældust mjög illa fyrir, bæði hjá almenningi og stjórnmálamönnum. Sérstaklega þar sem hagnaður tveggja þeirra, VÍS og Sjóvár, á árinu 2015 var mun lægri en fyrirhuguð arðgreiðsla. VÍS hagnaðist um 2,1 milljarð króna í fyrra en ætlaði að greiða hluthöfum sínum út fimm milljarða króna í arð. Sjóvá hagnaðist um 657 milljónir króna en ætlað að greiða út 3,1 milljarð króna í arð. TM hagnaðist hins vegar um 2,5 milljarða króna og ætlaði að greiða hluthöfum sínum út 1,5 milljarð króna.
Bæði Sjóvá og VÍS ákváðu síðar að lækka arðgreiðsluna. Sjóvá lækkaði sína úr 3,1 milljarði króna niður í 657 milljónir króna. Stjórn VÍS ákvað að lækka sína arðgreiðslu úr fimm milljörðum króna í 2.067 milljónir króna. Þetta er gert þrátt fyrir að stjórnin teldi að arðgreiðslutilkynningar hennar hafi verið vel innan þess ramman sem markmið um fjármagnsskipan félagsins gerir ráð fyrir.
Í tilkynningu sem send var út í kjölfarið sagði að viðskiptavinir og starfsmenn VÍS skipti félagið miklu. „Stjórnin getur ekki horft fram hjá þeirri staðreynd að fylgi hún núverandi arðgreiðslustefnu, þá geti það skaðað orðspor fyrirtækisins. Í því ljósi hefur stjórn ákveðið að leggja til að greiðsla sé miðuð við hagnað síðasta árs. Stjórn VÍS telur mikilvægt að fram fari umræða innan félagsins, meðal hluthafa og út í samfélaginu um langtímastefnu varðandi ráðstöfun fjármuna sem ekki nýtast rekstri skráðra félaga á markaði.“
Of margar konur í framboði til stjórnar
Á aðalfundi VÍS sem fram fór í mars kom upp sérkennileg staða sem varð til þess að fresta þurfti fundinum. Af þeim fimm sem buðu sig fram til stjórnarsetu í félaginu voru fjórar konur og einn karl, sem gerði það ómögulegt að mynda stjórn sem uppfyllti kröfur laga um kynjakvóta, sem gerir ráð fyrir að minnsta kosti 40 prósent stjórnar séu af hvoru kyni. Því þurfti að halda framhaldsaðalfund þar sem kosin var ný stjórn. Í henni sitja tvær konur og þrír karlar.
Fréttin var uppfærð klukkan 10:02.