Einkareknir ljósvakamiðlar á Íslandi ætla að stöðva útsendingar sínar í sjö mínútur á fimmtudaginn, 1. september, til að árétta ákall sitt um að fjölmiðlalögum á Íslandi verði breytt til að jafna samkeppnisstöðu þeirra. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fjölmiðlum Útvarps Sögu, Símans, ÍNN, 365 og Hringbrautar.
Fjölmiðlarnir segjast fagna jákvæðum viðbrögðum þingmanna þvert á flokka við ákalli þeirra um breytingar á fjölmiðlalögum, en til áréttingar um mikilvægi málsins muni einkareknir ljósvakamiðlar slökkva á útsendingum sínum í sjö mínútur á fimmtudagskvöld.
„Afar mikilvægt er að einkareknir fjölmiðlar sitji við sama borð og erlendir keppinautar sem nú herja bæði á áskriftar- og auglýsingamarkað á sama tíma og þeir greiða hér hvorki skatta né gjöld. Þessir miðlar lúta ekki íþyngjandi reglum um meðhöndlun efnis sem innlendir fjölmiðlar reglum gera. Einkareknir miðlar treysta á tekjur af auglýsingasölu til að standa undir starfseminni og því væri öllum til hagsbóta væru opinberir fjölmiðlar ekki á þeim markaði,“ segir í yfirlýsingunni.
Engar útsendingar verða á Útvarpi Sögu, ÍNN, Stöð 2, Stöð 3, Bíórásinni, Bylgjunni, Léttbylgjunni, Gullbylgjunni, FM Extra, FMX 80's Bylgjunni, FM957, X-inu, Sjónvarpi Símans, K100, Retro, Sjónvarpi Hringbrautar og Útvarpi Hringbrautar. Hvatt er til þess í yfirlýsingu fjölmilðalnna að aðrir einkareknir fjölmiðlar taki þátt í þessum aðgerðum klukkan 21 á fimmtudaginn.