Helstu stjórnendur smásölurisans Haga og aðilar tengdir þeim hafa selt hluti sína í félaginu á undanförnum vikum. Á meðal þeirra sem það hafa gert eru Guðmundur Marteinsson, framkvæmdastjóri Bónus, og eiginkona hans sem seldu bréf fyrir um 100 milljónir króna í síðustu viku. Eiginkona Finns Árnasonar, forstjóra Haga, seldi einnig hluti fyrir tæplega 50 milljónir króna í júlí og Kjartan Már Friðsteinsson, framkvæmdastjóri Banana ehf., dótturfyrirtækis Haga, seldi allan hlut sinn í félaginu í sama mánuði. Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag.
Þar er salan á hlutunum sett í samhengi við komu Costco á íslenskan smásölumarkað, sem mun eiga sér stað á næsta ári og áhyggjur af því að sú innreið muni hafa neikvæð áhrif á hlutabréfaverð í Högum. Hvorki Guðmundur né Finnur vildu ræða söluna á hlutabréfunum við Fréttablaðið.
30 prósent lægra vöruverð
Í janúar 2015 var staðfest að Costco, sem er önnur stærsta smásöluverslunarkeðja í heimi, ætlaði sér að opna risaverslun í Garðabæ og að samningar þess efnis væri langt komnir. Þá stóð til að verslunin myndi opna á fyrri hluta ársins 2016 en síðar var sú dagsetning færð aftur til nóvembermánaðar. Nú stendur til að verslunin opni á næsta ári.
Í skýrslu sem fyrirtækið Zenter vann um komu Costco til Íslands í byrjun júnímánaðar sagði að innkoma fyrirtækisins myndi umbylta íslenska markaðnum. Costco byði að jafnaði upp á 30 prósent lægra vöruverð en gengur og gerist hérlendis og viðmið þess í álagningu er að leggja einungis 15 prósent ofan á vörur.
Í verslunum Costco eru seldar allskyns vörur. Þar er meðal annars boðið upp á matvöru, heimilistæki, raftæki, húsgögn, dekk, föt, eldsneyti, skartgripi og gleraugu. Því verða áhrif innkomu fyrirtækisins á íslenska smásölu nokkuð víðtæk og ná yfir ansi marga undirmarkaði hennar. Til að átta sig á stærðargráðu fyrirtækisins Costco þá má benda á að það veltir um það bil tíu sinnum meira en íslenska hagkerfið á ári.
Fengu gefins hluti eftir að hafa selt hluti
Eftir að dótturfélag Arion banka tók yfir Haga og endurskipulagði félagið í kjölfar hrunsins lét það fimm stjórnendum Haga í té hluti í félaginu án endurgjalds og greiddi skatta af hlunnindunum í tengslum við samkomulag sem batt þá til starfa hjá félaginu. Heildarverðmæti gjörningsins var um 340 milljónir króna. Var samkomulagið gert í tengslum við sölu á 20 til 30 prósenta hlut í Högum í Kauphöllinni til nýrra eigenda, þegar félagið var skráð á markað fyrst félaga eftir bankahrun.
Tveir stjórnendanna voru þeir Finnur Árnason og Guðmundur Marteinsson sem fengu hvor 0,4 prósenta hlut í félaginu. Þeir Finnur og Árni áttu áður talsvert hlutafé í Högum sem þeir seldu til félagsins sjálfs á árunum 2008 til 2009 fyrir hundruð milljóna króna.