Niðurstaða sjóðstreymisgreiningar greinenda Íslandsbanka á HB Granda hf. gefur verðmatsgengið 0,26 evrur á hlut. Jafngildir þetta 33,8 krónum á hlut miðað við gengi evru nú. Félagið. Niðurstaða þessa verðmats er um 13 prósent hærra en síðasta skráða verð á félaginu, miðað við 30. ágúst, og er mælt með því að fjárfestar kaupi bréf félagsins.
Þetta kemur fram í nýrri greiningu á rekstri HB Granda. Rekstur félagsins hefur gengið afar vel síðustu ár, og nam hagnaður félagsins í fyrra 44,5 milljónum evra, eða sem nemur tæpum sex milljörðum króna miðað við núverandi gengi.
EBITDA framlegð félagsins, það er rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði, er í verðmati Íslandsbanka metin 25 prósent til framtíðar. „Við byggjum þessa forsendu á uppgjörum síðustu missera og þeim ábata sem við reiknum með að náist með nýsmíði þriggja ísfiskstogara sem afhentir verða félaginu fram á næsta ár. Forsenda um ábata af nýsmíði tveggja uppsjávarskipta sem þegar hafa verið afhent, raungerðist,“ segir í greiningunni.
Gengi hlutabréfa í HB Granda hækkaði nokkuð í gær, eftir að verðmatið kom fram, en sé horft yfir síðastliðið ár hefur gengið lækkað. Fyrir tæpu ári var gengi bréfa félagsins 42 en í dag er það 30,65.
HB Grandi er afar fjársterkt félag en í lok árs í fyrra var eignfjárhlutfall þess 62 prósent, og heildareignir námu ríflega 395 milljónum evra, eða sem nemur um 52 milljörðum króna. Langtímaskuldir félagsins voru í lok árs í fyrra 109,7 milljónir evra, eða sem nemur um 14,3 milljörðum króna.