Hagnaður Samherja rekstrarárið 2015 var 13,9 milljarðar króna. Þetta kemur fram í tilkynningu sem birt hefur verið á vef Samherja. Samtals greiddi Samherji 4,3 milljarða króna til opinberra aðila á Íslandi vegna reksturs ársins 2015. Tekjuskattur starfsmanna nam að auki 2,2 milljörðum króna.
Heildartekjur í fyrra námu 84 milljörðum króna, sem gerir fyrirtækið að langsamlega stærsta sjávarútvegsfyrirtæki landsins.
Rúmur helmingur af starfsemi Samherja samstæðunnar er erlendis. Samherji og dótturfélög eru með rekstur í 12 löndum og samstæðan er gerð upp í átta myntum, segir í tilkynningu. Skuldbindingar vegna fjárfestinga sem stofnað var til árið 2015 nema um 30 milljörðum. „Rekstrartekjur samstæðu Samherja voru tæpir 84 milljarðar króna árið 2015. Hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði nam 19,9 milljörðum króna, samanborið við 16,4 milljarða árið á undan. Afkoma af reglulegri starfsemi ársins 2015 var betri en árið á undan sem skýrist af góðri afkomu erlendrar starfsemi. Tekjur jukust á flestum sviðum, nettó fjármagnsgjöld án gengismunar voru mun lægri vegna minni skuldsetningar en á móti kom að gengismunur var óhagstæðari. Hagnaður fyrir tekjuskatt nam 17,4 milljörðum og að teknu tilliti til tekjuskatts var hagnaður ársins,“ segir í tilkynningu Samherja.
Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja og einn stærsti eigandi, segir að reksturinn hafi gengið vel, og að efnahagurinn sé traustur. Hann segir að staðan sé misjöfn á helstu mörkuðum. „Fyrirhuguð útganga Bretlands úr Evrópusambandinu mun hins vegar hafa neikvæð áhrif á afkomu okkar, að minnsta kosti til skamms tíma á meðan pundið er veikt. Stór hluti þorskafurða félagsins er seldur í Bretlandi. Staða uppsjávarmarkaða hefur verið mjög óviss vegna innflutningsbanns Rússa á íslenskar afurðir en einnig er ástandið ótraust bæði í Úkraínu og Nígeríu, sem eru mikilvægir markaðir okkar fyrir uppsjávarafurðir,“ segir Þorsteinn Már.
Lagt er til að hluthafar Samherja, þar sem stærstir eru frændurnir Þorsteinn Már Baldvinsson og Kristján Vilhelmsson, fái 1,4 milljarða arðgreiðslu vegna ársins í fyrra. Það nemur um tíu prósent af hagnaði ársins.