Þrír stærstu eigendur Vodafone eru líka þrír stærstu eigendur Símans. Gangi kaup Vodafone á ljósvakamiðlum og fjarskiptaþjónustu 365 miðla munu sömu þrír aðilarnir verða eigendur að félögunum sem eiga tvær stærstu einkareknu sjónvarpsstöðvar landsins og flest allar einkareknar útvarpsstöðvar þess.
Aðilarnir þrír eru stærstu lífeyrissjóðir landsins. Lífeyrissjóður verslunarmanna er stærsti eigandi bæði Vodafone (13,66 prósent) og Símans (14,27 prósent). Gildi Lífeyrissjóður á 13,23 prósent í Vodafone og 9,22 prósent í Símanum og Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins á 7,06 prósent í Vodafone en 7,44 prósent í Símanum. Samtals eiga þessir þrír lífeyrissjóðir 31 prósent í Símanum og 34 prósent í Vodafone.
Viðskiptablaðið greindi frá því um miðjan ágúst að þegar 20 stærstu hluthafar hvors félags eru teknir saman komi í ljós að tólf þeirra eigi hlut í báðum félögum. Þessir tólf hluthafar eigi alls 57,1 prósent hlut í Vodafone og 56,9 prósent hlut í Símanum.
Vilja kaupa hluta 365 á átta milljarða
Greint var frá því í gær að Vodafone hafi hafið einkaviðræður við 365 miðla um að kaupa ljósvakamiðla og fjarskiptaþjónustuhluta fyrirtækisins á átta milljarða króna. 3,4 milljarðar króna eiga að greiðast í reiðufé og með hlutum í Vodafone ásamt því að félagið mun taka yfir 4,6 milljarða króna af vaxtaberandi skuldum verði af kaupunum.
Það sem Vodafone er að kaupa eru sjónvarpsstöðvar á borð við Stöð og Stöð 2 Sport og útvarpsstöðvar á borð við Bylgjuna, X-ið og FM957 auk internet og símaviðskipta.
Gangi kaupin eftir mun því stærsta einkarekna sjónvarps- og útvarpsstarfsemi færast yfir til fjarskiptafélags. Eftir í 365 miðlum verður Fréttablaðið og Vísir og þá Fréttastofa 365 miðla, en þó á enn eftir að semja nákvæmlega um útfærslu á framtíð hennar.
Kjarninn fjallaði ítarlega um hin ætluðu kaup í fréttaskýringu í gær.
SkjáEinum rennt inn í Símann
Í október í fyrra var SkjáEinum rennt inn í Símann, sem hefur verið að leggja aukna áherslu á miðlun efnis og afþreyingar í gegnum fjarskiptanet félagsins. Í sumar var nafn stöðvarinnar svo lagt niður og tekið upp nafnið Sjónvarp Símans. Samhliða því að SkjárEinn rann inn í Símann var stofnuð streymisveita í áskrift og línuleg dagskrá sjónvarpsstöðvarinnar opnum öllum landsmönnum. SkjárEinn hafði þá verið selt í áskrift frá árinu 2009.
Þrjár aðrar einkareknar sjónvarpsstöðvar, sem sjónvarpa línulegu efni, eru reknar á Íslandi. Þær eru Hringbraut, ÍNN og N4.
Hið ríkisrekna RÚV er svo vitaskuld risi á markaðnum, en tekjur fyrirtækisins koma bæði af sérstakri skattlagningu sem öllum er skylt að greiða árlega og af auglýsingamarkaði.