68,6 prósent Íslendingar eru ánægðir með störf Guðna Th. Jóhannessonar sem forseta Íslands, samkvæmt nýrri könnun frá MMR, sem jafnframt er fyrsta könnunin á ánægju með störf hans.
Ánægja með störf forseta hefur aldrei mælst eins mikil frá því að MMR hóf slíkar mælingar, að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá MMR.
25 prósent aðspurðra segjast hvorki ánægð né óánægð með stör hans en einungis 6,4 prósent segjast óánægð með störf hans. Undanfarin ár hafa á bilinu 15-30 prósent sagst vera óánægð með störf Ólafs Ragnars Grímssonar sem forseta, en ánægjan með störf hans hefur verið í kringum 45-64 prósent.
Ánægja með störf Guðna sem forseta er mismunandi eftir stuðningi við stjórnmálaflokka, og þau sem styðja ríkisstjórnarflokkana eru nokkuð óánægðari með störf forseta en þau sem styðja aðra stjórnmálaflokka. Kjósendur Samfylkingarinnar eru ánægðastir með störf forsetans, en 96% þeirra segjast ánægð með hann. 83,6 prósent kjósenda Vinstri grænna, 76,1 prósent kjósenda Bjartrar framtíðar og 71,8 prósent kjósenda Pírata eru ánægð með störf forsetans. 75,1 prósent kjósenda annarra flokka eru ánægð með Guðna.
47,7 prósent kjósenda Framsóknarflokksins segjast hins vegar ánægð með störf forsetans, og 50,3 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokksins.