Tæplega 74% Íslendinga eru þeirrar skoðunar að íslensk stjórnvöld eigi að gera meira til að hjálpa fólki sem er á flótta undan stríði eða ofsóknum. Konur eru miklu líklegri til að vilja að stjórnvöld geri meira en karlar, 81,5% kvenna vilja að stjórnvöld geri meira, en 66,5% karla. Þetta kemur fram í nýrri könnun sem Maskína gerði fyrir Amnesty á Íslandi.
Þá er líka munur eftir aldri og búsetu svarenda. 83,5 prósent þeirra sem eru yngri en 25 ára vilja sjá stjórnvöld gera meira, 75,3 prósent 25-34 ára og 82,7 prósent þeirra sem eru á aldrinum 35-44 ára. 67,7 prósent þeirra sem eru 45-54 ára vilja gera meira og 66,1 prósent þeirra sem eru 55 ára og eldri.
83,5 prósent íbúa í Reykjavík vilja að stjórnvöld geri meira til þess að hjálpa flóttamönnum, en 71,3 prósent þeirra sem búa í nágrannasveitarfélögum borgarinnar. 67,1 prósent íbúa á Suðurlandi og Reykjanesi , 71,3 prósent þeirra sem búa á Vesturlandi og Vestfjörðum, 68,2 prósent á Norðurlandi og 72 prósent á Austurlandi vilja að íslensk stjórnvöld geri meira til að hjálpa þeim sem eru á flótta.
Tæp 15% vilja ekki að flóttamenn komi til Íslands
14,5 prósent aðspurðra vilja ekki að flóttamenn komi til Íslands. Hlutfallið er 18,1 prósent meðal karla en 10,8 prósent meðal kvenna. Hlutfall þeirra sem vilja ekki fá flóttamenn til Íslands hækkar með aldrinu, er 12,6% hjá fólki yngra en 35 ára, 14,7% hjá 35-64 ára og 18,6% hjá þeim sem eru 65 ára og eldri. 12,9% íbúa á höfuðborgarsvæðinu vilja ekki fá flóttamenn til Íslands en 17,4% íbúa í öðrum sveitarfélögum.
Marktækur munur er á skoðunum fólks á komu flóttamanna eftir menntun. 20,5% þeirra sem hafa grunnskólamenntun vilja ekki fá flóttamenn til Íslands á meðan 9,2% þeirra sem hafa háskólapróf vilja ekki fá flóttamenn. Hlutfallið er 18,3% hjá þeim sem hafa framhaldsskólapróf eða iðnmenntun.
Tæplega 13 prósent segjast tilbúin að leyfa flóttamönnum að búa á heimili sínu og ríflega helmingur þeirra sem svöruðu könnuninni eru tilbúnir að leyfa flóttamönnum að búa í hverfinu sínu. Til viðbótar segjast 9,1% til í leyfa flóttamönnum að búa í borginni, bænum eða sveitarfélaginu sem þau búa í, 11,5% á Íslandi, og sem fyrr segir vilja 14,5% ekki að flóttamenn komi til Íslands.
15 prósent fólks sem er yngra en 35 ára er reiðubúið að hýsa flóttamenn á heimili sínu, 12,8 prósent fólks 36 til 64 ára en 5,9 prósent þeirra sem eru eldri en 65 ára. Þá vekur athygli að hæst hlutfall fólks í lægsta tekjuhópnum er reiðubúið að hýsa flóttamenn á heimili sínu. Einn af hverjum fimm, eða 21,7% þeirra sem hafa undir 400 þúsund krónur á mánuði eru reiðubúnir að hýsa flóttamenn á heimili sínu, en 9,2% þeirra sem hafa 550-799 þúsund á mánuði.
15% finnst ekki að flóttamenn eigi að geta leitað hælis í öðrum löndum
Mikill meirihluti svarenda í könnuninni eru einnig þeirrar skoðunar að almennt eigi flóttamenn sem flýja stríð eða ofsóknir að geta leitað hælis í öðrum löndum. Þó eru 9,9% frekar ósammála og 5,5% mjög ósammála því. Konur eru marktækt meira sammála því að flóttamenn eigi að geta leitað hælis í öðrum löndum, 86,5% þeirra eru þeirrar skoðunar en 82,8% karla.
Svarendur í könnun Maskínu voru 1.159 talsins, en könnunin fór fram 22. júlí til 2. ágúst.