Ef RÚV hverfur af auglýsingamarkaði mun það skerða möguleika auglýsenda á að ná til neytenda. Þetta segja Samband íslenskra auglýsingastofa, Birtingahúsið og Mediacom, sem hafa samanlagt um helmingsmarkaðshlutdeild á íslenskum auglýsingamarkaði.
SÍA eru sjö stærstu auglýsingastofur landsins, og Birtingahúsið og Mediacom þjónusta mörg af stærstu fyrirtækjum landsins með auglýsingabirtingar. Þau hafa sent frá sér sameiginlega yfirlýsingu í kjölfar umræðunnar um að RÚV verði tekið af auglýsingamarkaði, og að breytingar verði gerðar á löggjöf til að jafna samkeppnisstöðu fjölmiðla. Umræðunni hefur ekki síst verið haldið á lofti af einkareknum ljósvakamiðlum hér á landi, sem meðal annars slökktu á útsendingum sínum í sjö mínútur síðasta fimmtudagskvöld.
„Saman hafa sjónvarps- og útvarpsstöðvar RÚV afgerandi mesta vikulega dekkun ljósvakamiðlanna og gæti brotthvarf þessara stöðva af auglýsingamarkaði orðið til þess að neytendur verði af mikilvægum upplýsingum um vörur og þjónustu,“ segir í fréttatilkynningu frá SÍA, Birtingahúsinu og Mediacom. Innan SÍA eru sjö stærstu auglýsingastofur landsins, og Birtingahúsið og Mediacom þjónusta mörg af stærstu fyrirtækjum landsins með auglýsingabirtingar.
„Að auki gegna sjónvarpsauglýsingar mikilvægu hlutverki í vörumerkja- og ímyndaruppbyggingu fyrirtækja. Það yrði erfiðara fyrir þau að byggja upp virði vörumerkja sinna þegar þau ná ekki augum og eyrum jafnmargra. Hætta er á að dregið yrði úr framleiðslu sjónvarpsauglýsinga sem hefði skaðleg áhrif á fyrirtæki og einstaklinga sem hafa tekjur af auglýsingaframleiðslu.“
Það sé hagur íslenskra neytenda að auglýsendur nái til þeirra með hagkvæmum hætti en ekki síður að næg fjölbreytni ríki á auglýsingamarkaði og eðlileg samkeppni þrífist. Sjónvarp og útvarp séu enn áhrifamiklir auglýsingamiðlar á Íslandi, en fjölmiðlaumhverfið sé að taka hröðum breytingum og það hafi áhrif á rekstrarumhverfi allra sem með beinum eða óbeinum hætti hafi tekjur af auglýsingum. „Samkeppni frá erlendum miðlum er og verður þeim íslensku erfið og mikilvægt að leitað verði leiða til þess að auðvelda íslenskum fjölmiðlum að dafna. Það er auglýsendum og neytendum í hag að það verði gert án þess að taka sjónvarps- og útvarpsstöðvar RÚV af auglýsingamarkaði.“