Nú þegar níu vikur eru til forsetakosninga í Bandaríkjunum hefur Hillary Clinton sterka stöðu í mörgum barátturíkjum og nokkrum ríkjum þar sem Repúblikanaflokkurinn hefur alltaf verið sterkur. Þetta gefur henni mikið forskot meðal kjörmannaráðsins, samkvæmt nýrri könnun frá Washington Post, sem birt var í morgun.
Könnun Washington Post var gerð í samstarfi við SurveyMonkey og er stærsta könnun sem blaðið hefur nokkurn tímann ráðist í. Könnunin var gerði í öllum 50 ríkjum Bandaríkjanna og byggir á svörum frá yfir 74 þúsund skráðum kjósendum.
Meðal þess sem könnunin sýnir er einn stærsti veikleikinn í kosningabaráttu Donalds Trump, frambjóðanda Repúblikanaflokksins. Það er að stuðningur við hann, sem frambjóðanda repúblikana, er minni en dæmi eru um hjá háskólamenntuðum, hvítum kjósendum, sérstaklega konum. Hvítir, háskólamenntaðir hafa verið tryggir kjósendur repúblikana í síðustu kosningum en Clinton hefur forskot á Trump meðal þessara kjósenda víðast hvar um landið, þar með talið í ríkjum sem eru yfirleitt alltaf örugg repúblikana-ríki.
Könnunin kemur í kjölfar annarra kannanna sem hafa sýnt að bilið í stuðningi milli frambjóðendanna tveggja fari minnkandi. Clinton var komin með 8-10 prósenta forskot í kjölfar landsfunda flokkanna í sumar en nú hefur það bil minnkað verulega.
Washington Post segir að margt í þeirra niðurstöðum sé í samræmi við aðrar kannanir, en ekki allt. Trump hefur örlítið forskot í tveimur barátturíkjum – Ohio og Iowa – og er nálægt því í Wisconsin, Pennsylvaniu og Michigan. Þrjú síðastnefndu ríkin hafa kosið demókrata í síðustu sex kosningum. Á sama tíma er hann hins vegar í vandræðum í ríkjum sem repúblikanar hafa unnið, og ríkjum sem hann yrði að vinna í ef hann ætti að eiga möguleika á forsetastólnum. Meðal þessara ríkja eru Arizona, Georgia og Texas.
Clinton leiðir meðal kjörmannaráðsins
Í Bandaríkjunum velur kjörmannaráð (e. Electoral College) forseta formlega. Öll ríki velja fulltrúa í þetta ráð og hvert ríki fær jafn marga fulltrúa og það hefur á þingi. Að auki fær District of Columbia, eða Washington-borg, jafn marga fulltrúa og það ríki sem hefur fæsta fulltrúa þar sem borgin tilheyrir engu ríki. Fjöldi þeirra fulltrúa er núna þrír, sem gerir 538 fulltrúa í kjörmannaráðinu. 270 fulltrúa þarf til að bera sigur úr býtum.
Samkvæmt könnun Washington Post hefur Hillary Clinton 4% forystu eða meira í 20 ríkjum og Washington-borg. Samtals eru það 244 kjörmenn, eða 26 færri en þarf til að vinna. Á sama tíma er Trump einnig með 4% eða meiri forystu í 20 ríkjum, en þau ríki gefa aðeins 126 kjörmenn. Í 10 ríkjunum sem eftir standa eru 168 kjörmenn í boði, og þar hefur hvorugur frambjóðandinn 4% forystu eða meira.