Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, fyrrverandi varaformaður Sjálfstæðisflokksins, og Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi formaður flokksins, hafa gengið til liðs við Viðreisn. Frá þessu segir hún á Twitter í dag. Talið er að Þorgerður Katrín muni skipa efsta sæti á lista flokksins í Suðvesturkjördæmi, eins og fullyrt var á síðum DV í gær.
Þorgerður Katrín hefur starfað hjá Samtökum atvinnulífsins undanfarin þrjú ár. Hún var menntamálaráðherra á árunum 2004 til 2009 og sat á Alþingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn í tíu ár, frá 1999 til 2009.
Þorsteinn Pálsson var lengi ráðherra fyrir Sjálfstæðisflokkinn undir lok síðustu aldar, meðal annars forsætisráðherra árin 1987 til 1988. Þá var hann formaður Sjálfstæðisflokksins árin 1983 til 1991.
Viðreisn mun bjóða fram í fyrsta skipti í Alþingiskosningunum í haus. Í nýjustu Kosningaspá Kjarnans mælist Viðreisn með 9,7 prósent stuðning kosningabærra manna og hefur verið með slíkt fylgi undanfarna tvo mánuði.
Undanfarið hafa forkólfar innan framboðsins tilkynnt um framboð sitt í hinum ýmsu kjördæmum og hefur nafn Þorgerðar Katrínar oft komið fram sem hugsanlegan oddvita í Suðvesturkjördæmi. Það er kjördæmi Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, vinar og fyrrverandi samherja Þorgerðar Katrínar í Sjálfstæðisflokknum.
Með framboði Þorgerðar Katrínar er komin nokkuð skýr mynd á hverjir muni skipa efstu sætin á lista Viðreisnar í fyrstu kosningunum sem stjórnmálaflokkurinn tekur þátt í. Hanna Katrín Friðriksson, framkvæmdarstjóri heilbrigðissviðs Icepharma, sækist eftir því að leiða annað Reykjavíkurkjördæmið, og Þorsteinn Víglundsson mun, líkt og áður sagði, væntanlega leiða hitt. Þá ætla Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, deildarforseti lagadeildar Háskólans á Bifröst, og Pawel Bartoszek, stærðfræðingur og pistlahöfundur, einnig fram fyrir Viðreisn í Reykjavík og búist er við að þau verði í næstu sætum fyrir neðan Hönnu Katrínu og Þorstein.
Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, greindi frá því í síðustu viku að hann muni verða í fyrsta sæti á framboðslista flokksins í Norðausturkjördæmi. Áður hafði verið búist við því að hann myndi bjóða fram í öðru hvoru Reykjavíkurkjördæminu. Þá hefur verið greint frá því að Gylfi Ólafsson, heilsuhagfræðingur frá Ísafirði, muni leiða lista Viðreisnar í Norðvesturkjördæmi. Jóna Sólveig Elínardóttir, aðjúnkt við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, hefur tilkynnt um framboð og þykir líklegust til að vera í efsta sæti á lista flokksins í Suðurkjördæmi.