Katrín Jakobsdóttir og Svandís Svavarsdóttir munu leiða lista Vinstri grænna í Reykjavíkurkjördæmunum tveimur, samkvæmt tillögu uppstillingarnefndar flokksins. Þetta kemur fram á Eyjunni.
Þá munu Steinunn Þóra Árnadóttir þingmaður og Kolbeinn Óttarsson Proppé almannatengill og pistlahöfundur skipa annað sæti í sitthvoru kjördæminu, samkvæmt Eyjunni. Katrín og Svandís leiddu lista flokksins í síðustu kosningum og eru báðar sitjandi þingmenn. Það er Steinunn Þóra einnig, en hún var varaþingmaður í upphafi kjörtímabilsins og kom inn á þing þegar Árni Þór Sigurðsson lét af þingstörfum og varð sendiherra.
Kolbeinn hefur undanfarið ár starfað hjá almannatengslafyrirtækinu Aton og hann hefur skrifað pistla í Kjarnann. Hann starfaði lengi sem blaðamaður á Fréttablaðinu. Áður en hann varð blaðamaður þar leiddi hann lista Vinstri grænna í Suðurkjördæmi fyrir kosningarnar 2003, en náði ekki kjöri. Hann er því ekki nýr í starfi VG.
Kosið verður um tillögu uppstillingarnefndarinnar á fundi á mánudaginn.