Sigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins, ætlar ekki að gefa kost á sér sem varaformaður flokksins á ný. Þetta tilkynnti Sigurður Ingi Framsóknarmönnum þegar hann kvaddi sér hljóðs á haustfundi miðstjórnar Framsóknarflokksins sem fram fór á Akureyri í dag, samkvæmt heimildum Kjarnans. Ástæðuna segir hann vera samskiptaörðugleikar í forystu flokksins. Ekki var gert ráð fyrir því að forsætisráðherra myndi tala í dagskrá fundarins. Frá þessu var einnig greint á RÚV.
Í kvöldfréttum RÚV kom fram að á fundinum hafi margir hvatt Sigurð Inga til að gefa kost á sér sem formaður flokksins á flokksþingi Framsóknarflokkins 1. október og fara gegn Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni sem hefur lýst því yfir að vilji áfram vera formaður flokksins. Sigurður Ingi tilkynnti hins vegar ekki um neitt slíkt en skaut föstum skotum að Sigmundi Davíð og fleirum innan forystu flokksins.
Þegar Kjarninn óskaði eftir viðbrögðum frá Sigurði Inga fengust þau svör að á fundinum hafi farið fram „[f]ínar og hreinskiptar umræður“. „Ráðherra mun hins vegar ekki tjá sig um einstök atriði sem koma fram á lokuðum fundum Framsóknarflokksins.“
Haustfundi miðstjórnar flokksins lauk laust fyrir klukkan 18. Sigmundur Davíð setti fundinn klukkan 13 og flutti rúmlega klukkustundar langt erindi þar sem hann fór um víðan völl; lýsti stjórnmálaástandinu í heiminum í dag og árangri ríkisstjórnar Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokks á yfirstandandi kjörtímabili.
Nafn Sigurðar Inga hefur ítrekað komið upp þegar rætt erum hugsanlega formannsframbjóðendur gegn Sigmundi Davíð í Framsóknarflokknum. Einnig hefur Eygló Harðardóttir verið nefnd sem líklegur frambjóðandi. Sigurður Ingi vildi ekki svara því í viðtali í kvöldfréttum Stöðvar 2 hvort hann sækist eftir formannsembættinu.