Fyrrverandi fjármálastjóri (CFO) fasteignafélagsins American Reality Capital Properties var handtekinn á heimili sínu í Pennsylvaníu síðastliðinn fimmtudag og ákærður síðar sama dag fyrir að fasla rekstrarafkomutölu félagsins. Hann bætist þar með í hóp stjórnenda félagsins sem leiddir hafa verið fyrir dómara vegna fjársvika félagsins.
Preet Bharara, saksóknari á Manhattan, sagði á blaðamannafundi að lygar fyrirtækja um rekstrarafkomutölur væru mannanna verk, og þær hefðu miklar afleiðingar fyrir fjárfesta sem tækju ákvarðanir á grundvelli þeirra gagna sem væru kynntar. „Það er mikilvægt að ákæra í þessum málum og leiða þau til lykta,“ sagði Bharara enn fremur.
Brian Block, forstjóri fyrirtækisins og þekktur fasteignamógull á Manhattan, hefur einnig verið ákærður og endurskoðandi félagsins, Lisa McAllister, játaði sök, þegar spjótunum var beint að henni í dómsmáli í júní. Hún var sökuð um að hylma yfir raunverulega stöðu félagsins, sem féll eins og spilaborg haustið 2014 en fall á markaðsvirði þess nam um fjórum milljörðum Bandaríkjadala, eða um 500 milljörðum króna, á örfáum dögum.
Strax í kjölfarið hófu yfirvöld að rannsaka félagið, eftir mikinn þrýsting frá fjárfestum, sem töldu kynningar stjórnenda félagsins á fjárhagslegum styrk þess ekki hafa verið í samræmi við raunverulega stöðu þess.
Í New York Times segir að ekki séu enn komin öll kurla til grafar, enda hafði fall fyrirtækisins víðtækar afleiðingar fyrir fjárfesta, bæði á hlutabréfa- og skuldabréfamarkaði.