Forsetaefni Demókrata í Bandaríkjunum, Hillary Clinton, hefur verið greind með lungnabólgu og er sögð þurfa að taka því rólega næstu daga og vikur vegna lungnabólgu og ofhitnunar. Hún þurfti að yfirgefa minningarstund í tilefni af því að fimmtán eru liðin frá árásunum 11. september. Hún sást yfirgefa minningarstundina í New York, og var þá ekki í jafnvægi, samkvæmt myndskeiðum sem náðust af því þegar hún steig upp í bíl og var svo ekið á brott.
David Shuster, sem hlotið hefur Emmy verðlaun fyrir fréttamennsku sína fyrir MSNBC, greindi frá því á Twitter svæði sínu að Demókratar væru nú að skipuleggja neyðarfund og ræða möguleikann á því að Hillary þurfi að draga framboð sitt til baka vegna veikinda, en kosið verður í Bandaríkjunum 8. nóvember, eða innan við tvo mánuði.
Clinton, sem er 68 ára gömul, hefur mælst með forskot á keppinaut sinn Donald J. Trump, sem er sjötugur, í skoðanakönnunum að undanförnu, en sveiflurnar hafa þó verið nokkrar, og hefur Trump verið að sækja í sig veðrið í sumum þeirra.
Orðrómur um að Clinton sé að glíma við veikindi hefur verið áberandi í umfjöllunum fjölmiðla að undanförnu hér vestan hafs, einkum á vefsíðum, en aldrei hefur þó verið að staðfest að hún eigi við veikindi að stríða fyrir nú.
Í umfjöllunum CNN í dag, kom fram að hún hefði farið í íbúð Chelsea dóttur sinnar í New York eftir að hafa heimsótt lækni, og átt þar rólegan dag.
Hillary eða fulltrúar framboðs hennar hafa ekki ennþá gefið út neinar opinberar yfirlýsingar vegna veikinda hennar eða hvað þau þýðir fyrir framboðið, nema hvað lungnabólga hennar hefur verið staðfest.
Næstu átta vikur eru mikilvægar í kosningabaráttunni, og mun reyna mikið á frambjóðendur, þar sem þeir ferðast vítt og breitt um landið. Í Wall Street Journal segir að ljóst sé að þessu nýjustu tíðindi af Hillary hleypi mikilli spennu í baráttuna, sem hefur verið að harðna verulega á undanförnum vikum.