Guðni Ágústsson, fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins og áhrifamaður innan hans um árabil, vill að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson víki sem formaður flokksins. Enginn maður sé stærri en flokkurinn og að mikilvægt sé að fá frið um formannsembætti Framsóknarflokksins. Hann telur að Sigurður Ingi Jóhannsson, varaformaður og forsætisráðherra, eigi að taka við. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.
Þar segir Guðni að þótt mönnum þyki vænt um Sigmund Davíð, sem hann kallar afreksmann í pólitík, þá vilji flokkurinn geta lagt verk sín í dóm kjósenda. Guðni telur ljóst að „þessi vondu mál sem hann hefur orðið fyrir muni yfirskyggja alla kosningabaráttu og skaða árangur flokksins í kosningum.“ Þar á Guðni án efa við um Wintris-málið svokallaða, þar sem opinberað var að Sigmundur Davíð og eiginkona hans ættu miklar eignir í aflandsfélaga með heimilisfesti á Tortóla og að félagið væri kröfuhafi í bú gömlu bankanna.
Guðni vill að sem formaður flokksins veljist maður sem geti talað við alla án þess að persónuleg málefni þvælist fyrir. Sigurður Ingi hafi staðið sig vel og geti talað við alla. „Það eru tveir hjartakóngar í spilum Framsóknarflokksins[...]Sigmundur Davíð er afreksmaður í pólitík. Með skuldalækkun, Icesave og að endurheimta fé fallinna banka hefur hann sýnt það. En nú eiga Framsóknarmenn ekki að deila um þessa menn. Þeir verða að meta þetta eins og í fótbolta. Á Eiður Smári að vera sá sem keyrir liðið áfram og skorar mörkin eða er annar líklegur til þess að gera það betur í þetta sinn.“
Sigurður Ingi greindi frá því um helgina að hann ætlaði ekki að sækjast eftir því að gegna embætti varaformanns áfram á komandi flokksþingi, sem fer fram í byrjun október, vegna samskiptaerfiðleika í forystunni. Ljóst er að tvær fylkingar hafa myndast innan Framsóknarflokksins. Önnur vill losna við Sigmund Davíð sem formann og að Sigurður Ingi taki við. Hin reynir hvað sem hún getur að sjá til þess að Sigmundur Davíð haldi stöðu sinni og leiði flokkinn inn í kosningar.
Lofaði Sigmund Davíð og Bjarna
Skoðun Guðna á Sigmundi Davíð sem formanni hefur bersýnilega breyst vegna Wintris-málsins. Fyrir ári síðan skrifaði hann grein í Morgunblaðið þar sem hann sagði flokksformann sinn og Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins, vera langt komna með að koma Íslandi í fremstu röð allra þjóða í Evrópu með aðgerðum sínum. Hann hefði enga trú á öðru en að hinn almenni kjósandi væri samþykkur þeirra verkum, fyndi breytingu til batnaðar í veskinu sínu og myndi sjá að sér og kjósa þá í næstu þingkosningum.
„Þeir höfnuðu Icesave, þeir stóðu gegn aðild að ESB, þeir höfnuðu evrunni, þeir lækkuðu skuldir heimilanna. Þeir lækkuðu skatta, þeir björguðu heilbrigðiskerfinu og hjól atvinnulífsins eru farin að snúast á ný. Og stærsta verkefnið er komið á fulla ferð að frelsa og losa landið við gjaldeyrishöftin, hirða peninga af og skattleggja „hrægammasjóðina,“ og lækka skuldir ríkissjóðs,“ sagði Guðni um þá Bjarna og Sigmund Davíð.