Colin Powell, fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna og herforingi, lýsir frambjóðanda flokksins, Donald J. Trump, sem „þjóðarskömm“ í tölvupóstum sem hafa lekið út. Powell hefur staðfest við NBC fréttaveituna að tölvupóstarnir séu hans, og þetta sé lítið brot af því sem tölvuhakkararnir komust yfir.
Pósturinn þar sem fyrrnefnd lýsing kemur fyrir var sendur 17. júní á þessu ári til blaðamannsins Emily Miller, sem áður var aðstoðarmaður hans.
Powell segir í póstinum, sem hafa verið birtir á vefnum DCLeaks: „Hann höfðar til verstu englanna í Repúblikanaflokknum og fátæks hvíts fólks,“ skrifaði Powell. Hann lýsir Trump jafnframt sem „úrhraki“ á alþjóðlegum vettvangi sem grafi undan tiltrú fólks á Bandaríkin.
DCLeaks vefurinn hefur að undanförnu birtar mikið af gögnum sem tölvuhakkarar hafa komist yfir, meðal annars gögn um viðskiptaveldi fjárfestisins George Soros.
Í tölvuárásinni komust hakkarar yfir um 30 þúsund tölvupósta Powells, og hafa þeir ekki allir verið birtir opinberlega ennþá. Búast má við því að póstarnir muni valda titringi á næstunni, en fram hefur komið í fjölmiðlum hér vestan hafs að Powell, sem var utanríkisráðherra á árunum 2001 til 2005, hafi ráðlagt Hillary Clinton um það hvernig best væri að halda samskiptum í tölvupóstum persónulegum.
Kosið verður í Bandaríkjunum 8. nóvember og er kosningabaráttan milli Hillary og Trump farin að harðna verulega. Hillary er nú að jafna sig af lungnabólgu, en segist ætla að koma tvíefld til leiks í lokasprettinn.
Hillary mælist nú í flestum könnunum með meira fylgi en Trump, en hann
segist ætla að eyða miklum fjárhæðum í auglýsingar á síðustu vikunum til að
efla sína baráttu sem mest. Hann hefur hvergi slegið af í órökstuddum yfirlýsingum sínum,
og kallaði meðal annars Janet Yellen, seðlabankastjóra, „vitleysing“ á dögunum, án þess að skýra það frekar með öðru en því, að hann væri ósammála vaxtastefnu seðlabankans.