„Guðni Ágústsson hefði kannski átt að taka Halldór Ásgrímsson, Steingrím Hermannsson og fleiri sér til fyrirmyndar, að leyfa forystu flokksins að starfa í friði. Það hafa formenn yfirleitt gert. Hann er kominn út úr þessu öllu saman,“ segir Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, í viðtali við Fréttablaðið í dag.
Hann segist sjálfur vera að íhuga varaformannsframboð í Framsóknarflokknum, og þá segist hann styðja Sigmund Davíð Gunnlaugsson sem formann flokksins. „Ég hef sagt það við Sigurð Inga sjálfan að ég myndi ekki gera það. Ég tel að flokkurinn sé betur kominn undir stjórn Sigmundar Davíðs áfram,“ segir Gunnar Bragi meðal annars í viðtalinu.
Guðni Ágústsson, fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins, sagði í viðtali við Fréttablaðið í gær, að hann vildi að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson myndi hætta sem formaður. Hann sagðist telja framboð hans geta skaðað flokkinn, og að enginn einn einstaklingur væri stærri en flokkurinn.
Flokksþing Framsóknarflokksins fer fram 1. til 2. október næstkomandi í aðalsal Háskólabíós í Reykjavík. Á því mun koma í ljós hvernig forysta flokksins mun verða þegar flokkurinn fer inn í Alþingiskosningarnar sem fara fram tæpum mánuði síðar, eða 29. október.