Íslenska ríkið reynir nú að koma í veg fyrir að héraðsdómur Reykjavíkur skipi sérfræðinga til að meta hvort ríkið hefði efnahagslegar forsendur fyrir því að neita að skipta aflandskrónum tveggja bandarískra vogunarsjóða á markaðsgengi í aflandskrónuútboði sem fram fór í júní. Lögmenn stjórnvalda hafa fengið frest til þess að skila inn frekari skriflegum rökstuðningi fyrir því að það eigi ekki að skipa sérfræðinga í málinu. Bloomberg greinir frá.
Seðlabanki Íslands hélt tvö aflandskrónuútboð í júní þar sem eigendum aflandskróna bauðst að skipta þeim yfir í evrur gegn afslætti. Fjöldi bandarískra sjóða sem eiga slíkar ákváðu að taka ekki þátt í útboðunum tveimur, en í því síðari bauðst bankinn til að kaupa krónur þeirra fyrir 190 krónur á hverja evru. Fjárhæð samþykktra tilboða í báðum útboðunum var 83 milljarðar króna og hækkaði einungis um fimm milljarða króna milli útboða. Alls voru 188 milljarðar króna boðnir í útboðinu en heildarumfang aflandskrónuvandans var fyrir það um 319 milljarðar króna.
Tveir sjóðir, Eaton Vance Corp. og Autonomy Capital LP, sættu sig ekki við að eignir þeirra hafi verið settar inn á nær vaxtalausa reikninga í refsingarskyni fyrir að taka ekki þátt í útboðunum á því gengi sem Seðlabankinn bauð þeim, og var umtalsvert undir markaðsgengi. Þess í stað fólu sjóðirnir lögmanni sínum að kanna grundvöll fyrir mögulegri málshöfðun á hendur íslenska ríkinu auk þess sem þeir hafa kvartað til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) vegna lagasetningar sem samþykkt voru aðfaranótt 23. maí síðastliðins, og þeir telja að feli í sér eignarupptöku og brot á jafnræðisreglu. Fyrsta skrefið í þeirri viðleitni var að fara fram á það við héraðsdóm Reykjavíkur að sérfræðingar verði skipaðir til að fara yfir lögmæti þeirra aðgerða sem framkvæmdar voru gegn aflandskrónueigendum með lögum sem samþykkt voru fyrr á þessu ári.
Á Bloomberg er rætt við Guðrúnu Þorleifsdóttur, skrifstofustjóra efnahagsmála og fjármálamarkaðar í fjármálaráðuneytinu. Hún segir að stjórnvöld séu að verja sig með sama hætti í málinu og þau geri í öðrum. Það sé þó óvenjulegt, ef ekki fordæmalaust, að stefnandi fari fram á að dómstólar skipi sérfræðinga til að sinna því hlutverki sem sjóðirnir vilja að þeir sinni. Mótmæli stjórnvalda snúast um að sjóðirnir tveir séu að fara fram á að vald sérfræðinganna til að komast að niðurstöðu verði of umfangsmikið.