Ellefu íslenskir lífeyrissjóðir og fjórir aðrir íslenskir fjárfestar munu tapa meira en 500 milljónum króna á fjárfestu í fataverslun í miðborg London, Duchamp. Fjárfestarnir keyptu verslunina í gegnum sjóðinn Arev N II í mars 2015 á af félaginu Földungi, sem var í eigu slitabús Glitnis. Kaupverðið var um 400 milljónir króna auk þess sem lán voru veitt. Duchamp var veitt greiðslustöðvun í byrjun júlí. Í Morgunblaðinu í dag segir að líklegt sé að endurheimtir fjárfestingarinnar, sem samanlagt er yfir hálfum milljarði króna, verði engar.
Duchamp var herrafataverslun sem stofnuð var árið 1989. Auk verslunar í London rak fyrirtækið fataverslun á netinu. Síðan að greiðslustöðvunin var veitt hefur dómskipaður matsmaður unnið að því að selja eignir félagsins.
Misfellur tilkynntar til FME í sumar
Arev N II sjóðnum var stýrt af Arev verðbréfafyrirtæki. Hann komst í fréttir í sumarþegar greint var frá því að tvö félög sem tengjast Arev verðbréfafyrirtæki greiddu ekki hlutafé inn í sjóðinn í samræmi við það sem þau lofuðu að gera. Þetta sagði Gunnar Sturluson, hæstaréttarlögmaður og einn eiganda lögmannsstofunnar LOGOS, við Kjarnann í júní þegar hann tók við sem er nýr stjórnarformaður Arev N II, sem hafði þá verið tekinn úr stýringu hjá Arev. LOGOS var sömuleiðis falið að tilkynna um það sem stofan álitur „alvarlegar misfellur í rekstri Arev N II“ til Fjármálaeftirlitsins (FME).
Hluthafar í Arev N II eru fimmtán talsins. Þar af eru ellefu lífeyrissjóðir. Hluthafar skuldbundu sig til að leggja sjóðnum til hlutafé sem kallað var eftir jafnóðum og fjárfest var samkvæmt ráðgjöf Arev verðbréfafyrirtækis. Alls átti nafnverð hlutafjár að vera tæplega 660 milljónir króna í byrjun desember síðastliðins.
Gunnar sendi frá sér fréttatilkynningu í byrjun júní. Þar kom fram að á hluthafafundi fagfjárfestasjóðsins Arev N II þann 26. maí síðastliðinn hafi verið samþykkt að skipta um ábyrgðaraðila og þar með stjórn sjóðsins. Gunnar tók þá við sem nýr stjórnarformaður sjóðsins. Í kjölfarið rifti stjórnin samningi við Arev verðbréfafyrirtæki um eignastýringu sjóðsins. Í fréttatilkynningunni sagði: „Komið hafa í ljós alvarlegar misfellur í rekstri Arev N II og var LOGOS lögmannsþjónustu falið að tilkynna um þær til Fjármálaeftirlitsins“.
Gunnar sagði í svari við fyrirspurn Kjarnans um málið í júní að hinar alvarlegu misfellur felist í því að hluthafar sjóðsins, sem eru meðal annars ellefu lífeyrissjóðir, voru ekki upplýstir um að tvö félög í hluthafahópnum höfðu ekki staðið við hlutafjárloforð sín. „Við teljum það mjög aðfinnsluvert, sérstaklega í ljósi tengsla umræddra hluthafa við Arev verðbréfafyrirtæki sem sá um eignastýringu.“
Arev var stofnað árið 1996 og eru hluthafar þess Eignarhaldsfélagið Arev hf. (99,94 prósent) og Jón Scheving Thorsteinsson (0,06 prósent) sem jafnframt er eigandi Eignarhaldsfélagsins Arev hf.