Sprengja sprakk í Chelsea-hverfinu á Manhattan í New York rétt um níu leytið á laugardagskvöld, að staðartíma, og særði hún 29. Enginn lést, og þykir það kraftaverki næst. Andrew Cuomo, ríkisstjóri í New York, lýsti því yfir í gær að sprengingin væri hryðjuverk og málið yrði rannsakað á þeim forsendum. „Þeir sem bera ábyrgð á þessari hryðjuverkaárás verða dregnir fyrir dómstóla,“ sagði Cuomo á blaðamannafundi. Fimm eru nú í haldi lögreglu, vegna gruns um að hafa komið að skipulagningu sprengjuárásarinnar.
Sprengibúnaður finnst í grennd
Skammt frá sprengjusvæðinu fannst sprengibúnaður sem ekki hafði farið af stað. Önnur sprengja hefði því getað sprungið, og sagðist Cuomo ekki geta hugsað það til enda, ef það hefði gerst. Í raun væri það mikil heppni að enginn hefði látið lífið.
Sprengjan sprakk í eða við ruslagám á 23. stræti, á Manhattan. Í grennd eru vinsælar götur þar sem er fjöldi veitingahúsa og verslana. Mikil hræðsla greip um sig þegar sprengjan sprakk, en allt tiltækt lið lögreglu var umsvifalaust sent á vettvang, og staðir rýmdir í grennd. Skömmu eftir sprenginguna var viðbúnaður aukinn enn frekar, eftir að sprengjan í grennd, við 27. stræti, fannst.
Ekki er vitað hverjir bera ábyrgð á árásunum, en allt bendir til þess að þeim hafi verið ætlað að valda eins miklu manntjóni og mögulega var hægt. Sprengjurnar voru útbúnar þannig, að sprengjubrot færu sem víðast, að því er fram kom í máli Cuomo.
Fimm í haldi
Í nótt var staðfest af lögreglunni í New York að fimm væru í haldi lögreglu, vegna gruns um að hafa komið að skipulagningu árásanna. Að öðru leyti verst lögregla frétta.
Bill de Blasio borgarstjóri vildi ekki tala um það með ákveðnum hætti, að um hryðjuverkaárás hefði verið að ræða, heldur ætti það eftir að skýrast eftir því sem rannsókn málsins yrði framhaldið.