Francois Hollande, forseti Frakklands, sagði í ávarpi sínu á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í gær að alþjóðasamfélagið þyrfti að stilla til friðar í borgarstríðinu í Sýrlandi. Annað yrði því til „ævarandi skammar“ og nauðsynlegt væri að taka höndum saman, og grípa inn í atburðarásina.
Hollande, sem flutti ávarpið með tilfinningaþrungnum hætti, sagði að skelfingin í landinu væri nánast ólýsanleg. „Nóg er nóg,“ sagði Hollande. Efnavopnum væri beitt, sprengjum varpað á lestir hlaðnar hjálpargögnum, óbreyttir borgar væru að stráfelldir í loftárásum og hernaði á jörðu niðri.
Nauðsynlegt væri að fá fleiri þjóðir að hjálparstarfi í landinu, og auka þungann í pólitískum viðræðum sem geti leitt til friðar.
Barack Obama Bandaríkjaforseti talaði fyrir því að borgarastríðið í Sýrlandi yrði ekki leyst með hernaði, heldur með pólitískum viðræðum. Þær yrðu að vega þyngst, og þar geti margar þjóðir - stórar og smáar - lagt mikið af mörkum. En hann lagði mikla áherslu á að Bandaríkin væru í lykilhlutverki, og Rússar einnig.
John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, átti í gær fund með Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, um ástandið í Sýrlandi eftir að vopnahlé fór þar út um þúfur í dag. Kerry sagði við fréttamenn að möguleiki á vopnahléi væri enn til staðar, eftir fundinn.
Áður en borgarastríðið í Sýrlandi braust út bjuggu 22,5 milljónir í landinu, en talið er að meira en helmingur þeirra, eða um 12 milljónir, séu nú á flótta, ýmist utan eða innan landsins.