Kaupþing áformar að selja stóran eignarhlut í Arion banka í gegnum hlutafjárútboð í Svíþjóð. Bankinn yrði þá tvöfalt skráður, í Kauphöllina í Stokkhólmi og í Kauphöll Íslands. Samkvæmt tímaáætlun er gert ráð fyrir því að skráningin fari fram á fyrri hluta næsta árs. Frá þessu er greint í DV í dag.
Ekki liggur fyrir hversu stór hluti í Arion banka verður seldur þegar skráningin mun eiga sér stað. Ef króna fæst fyrir krónu af eigin fé Arion banka er verðmæti hlutar Kaupþings í bankanum - en Kaupþing á 87 prósent og íslenska ríkið 13 prósent - um 168 milljarðar króna.
Í DV segir einnig að að stefnt sé að því að selja hlut í bankanum í lokuðu útboði til hóps íslenskra lífeyrissjóða og hluthafa Kaupþingis - sem eru fyrrum kröfuhafar bankans - fyrir árslok 2016. Blaðið greinir frá því að Paul Copley, forstjóri Kaupþings, og John P. Madden, framkvæmdastjóri hjá félaginu, hafi átt símafund með hluthöfum félagsins á föstudag þar sem þeir hafi greint frá þessu.
Viðræður runnu út í sandinn
Hópur stórra íslenskra lífeyrissjóða hafa lengi haft áhuga á að kaupa Arion banka og hafa ráðoð sérstaka ráðgjafa til að vinna að því markmiði fyrir sig. Í lok ágúst var greint frá því að viðræður um kaup þeirra á 87 prósent hlut Arion banka hafa runnið út í sandinn. Þetta gerðist samhliða því að nýir stjórnendur hafa tekið við hjá Kaupþingi í kjölfar þess að nauðasamningur bankans var kláraður um síðustu áramót og eignarhaldsfélagið Kaupþing tók við eftirstandandi eignum hans. Engar viðræður voru sagðar í farvatninu.
Kaupþing þarf að selja hlut sinn í Arion banka fyrir árslok 2018. Takist það ekki mun ríkissjóður leysa bankann til sín. Þetta var hluti af því samkomulagi sem kröfuhafar Kaupþings gerðu við ríkið þegar samið var um uppgjör á slitabúi bankans á síðasta ári.
DV greindi frá því í byrjun september að Benedikt Gíslason, sem var einn helsti ráðgjafi íslenskra stjórnvalda við vinnu að áætlun um losun fjármagnshafta, hafi verið ráðinn ráðgjafi Kaupþings vegna sölu á Arion banka. Hann er því farinn að vinna fyrir fyrrverandi mótaðila sína við samningsborðið.