Í niðurstöðukafla skýrslu nefndar, sem skipuð var 31. júní af Sigurði Inga Jóhannssyni forsætisráðherra, kemur fram að skortur á sterkum innviðum hafi „staðið fjölbreyttum atvinnutækifærum fyrir þrifum á Vestfjörðum og þar sem nútímasamskiptatækni skorti sé landshlutinn í verri samkeppnisstöðu til að laða að yngra fólk til búsetu.“
Telur nefndin að snúa þurfa vörn í sókn þegar kemur að samgöngum og innviðafjárfestingum. Með því sé hægt að undirbyggja betur efnhagslegar aðgerðir og tryggja betri aðstöðu fyrir fyrirtæki, stofnanir og fjölbreyttara mannlíf.
Heimamenn gaumgæfðu stöðuna
Í nefndina voru skipuð Ágúst Bjarni Garðarsson, aðstoðarmaður forsætisráðherra, sem jafnframt var formaður, Daníel Jakobsson, fulltrúi norðanverðra Vestfjarða, Valgeir Ægir Ingólfsson, fulltrúi sunnanverðra Vestfjarða, Aðalbjörg Óskarsdóttir, fulltrúi Stranda og Reykhólahrepps og Hanna Dóra Hólm Másdóttir, sérfræðingur í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, sem jafnframt var starfsmaður nefndarinnar. Með nefndinni störfuðu einnig Aðalsteinn Óskarsson, framkvæmdastjóri Fjórðungssambands Vestfjarða, Pétur G. Markan, formaður Fjórðungssambands Vestfjarða auk þess sem nefndin kallaði Shiran K. Þórisson, framkvæmdastjóra Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða inn á einstaka fundi nefndarinnar.
Áhersla er lögð á það í skýrslunni að Alþingi tryggi fjármögnun í innviðafjárfestinga. Þar undir eru samgöngur og fjarskipti, og orkumál einnig. Sérstök áhersla er lögð á að efling samganga geti rutt hindrunum úr vegi, og búið til svæði sem auki möguleika atvinnusókn og fjölbreyttri starfsemi. „Tryggja þurfi í fjárlögum næstu ára að lögð verði áhersla á eflingu innviða á Vestfjörðum á sviði orku, samgangna og fjarskipta. Styttri vegalengdir milli byggðakjarna og öruggari vegir skapi möguleika til mótunar stærri og lífvænlegri atvinnu- og búsetusvæða. Öryggi í orkumálum, bættar samgöngur og bætt fjarskipti ásamt framboði á góðri menntun og tryggri heilbrigðisþjónustu séu allt þættir sem veita fólki á öllum aldri öryggi og bæti búsetuskilyrði. Þættir sem þyki hluti af sjálfsögðum lífsgæðum í nútímasamfélögum verði að vera til staðar á Vestfjörðum eigi atvinnulíf og samfélag þar að geta dafnað,“ segir meðal annars í útdrætti skýrslunnar.
Fjórir meginþættir
Í skýrslunni er sérstaklega vikið fjórum meginmarkmiðum, sem eru að fjölga íbúum, fjölga störfum, nýta betur tækifæri sem eru fyrir hendi og treysta byggð með eflingu innviða. Segja má að þetta séu samverkandi þættir sem nefndin telur að verði best leiddir fram með auknum innviðafjárfestingum.
Íbúum á Vestfjörðum hefur fækkað um langt skeið og eru upplýsingar um þá þróun dregnar saman í skýrslunni. Ákveðin viðsnúningur varð á áttunda áratugnum og fram undir miðjan níunda áratuginn, en síðan þá hefur íbúum fækkað á hverju ári. Þann 1. janúar 2016 voru íbúar 6883 talsins, 1. janúar 2008 voru þeir 7238 og 1. janúar, 1998, 8556 talsins. Fækkun er í öllum aldurshópum frá 0-50 ára en fjölgun í þeim eldri.
Íbúar af erlendum uppruna nema um tíu prósent mannfjöldans á svæðinu. Sjávarútvegur er langöflugasta atvinnugreinin með um 59 prósent tekjumyndunar (viðmið 2014) og launagreiðslna, segir í skýrslunni. „Aðrar atvinnugreinar sækja á og er mestur vöxtur í fiskeldi. Sá vöxtur er margfaldur miðað við aðrar atvinnugreinar en þar á eftir kemur vöxtur í ferðaþjónustu. Verulegur samdráttur er í byggingarstarfsemi og fasteignaviðskiptum[...] Þegar allt þetta er talið saman er rík ástæða til að hafa áhyggjur af framtíð samfélags- og atvinnumála á Vestfjörðum,“ segir í skýrslunni.
Verkin verði látin tala
Nefndin er samhljóma í sinni niðurstöðu, og leggur til í aðgerðaáætlun að hið opinbera láti verkin tala. Hið augljósa sé það að þörf sé á uppbyggingu innviða á Vestfjörðum, og það þoli enga bið koma málum í átt til framkvæmda.