Tillaga um þingrof hefur verið undirrituð af Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands. Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra tilkynnti þetta við upphaf þingfundar í dag.
Það er því ljóst að þing verður rofið 29. október og kosningar fara fram þann dag. Engu að síður mun þing halda áfram að starfa næstu daga í samræmi við endurskoðaða starfsáætlun þingsins.
Að lokinni tilkynningu Sigurðar Inga tóku til máls formenn stjórnarandstöðuflokkanna og minntu á ástæðu þess að þing væri nú rofið og boðað til kosninga fyrr en áætlað hefði verið. Það væri vegna hneykslismála ráðherra í ríkisstjórninni, það er afhjúpanir Panamaskjalanna, sem sýndu að þáverandi forsætisráðherra, auk fjármálaráðherra og innanríkisráðherra, hafi átt félög í skattaskjólum.
Nú þegar þingrofstillaga er komin fram verður hægt að hefja utankjörfundaratkvæðagreiðslu til kosninga.