Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar Alþingis, segir að skýrsla meirihluta nefndarinnar, um einkavæðingu bankanna hina síðari, verði að formlegri þingskýrslu á morgun þegar hún verði tekin út úr fjárlaganefnd. Það sé orðhengilsháttur hjá forseta þingsins, Einari K. Guðfinnssyni að segja skýrsluna ekki vera skýrslu í skilningi þingskapa Alþingis. „Það er verið að hanga í einhverjum tæknilegum atriðum en ekki efnislegum,“ sagði Vigdís í morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun.
Einar sagði í gær að það væri afstaða hans að samantekt þeirra Vigdísar og Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, varaformanns nefndarinnar, sé ekki skýrsla í skilningi þingskapa, „enda hefur samantektin ekki hlotið formlega meðferð í fjárlaganefnd í samræmi við ákvæði þingskapa. Ég lít því svo á að skýrslan sé enn til umfjöllunar í fjárlaganefnd og hafi ekki hlotið afgreiðslu nefndarinnar.“
Vigdís gaf ekki mikið fyrir orð Einars. „Mikið hefur aumingja maðurinn slæma ráðgjafa, því haldið þið að ég sem þingmaður og Guðlaugur Þór varaformaður fari að vinna eitthvert mál í þinginu sem er gegn þingsköpum?“ sagði hún í morgun.
Þá beindi hún sjónum sínum að þingsköpunum sem hún gagnrýndi mjög, þótt hún segist ekki hafa starfað í mótsögn við þau. „Ég veit að forsætisnefnd þingsins er að fá ráðgjöf frá þeim aðilum sem hafa verið að breyta þingskaparlögum hér undanfarin ár. Sem ég tel að hafi verið gert á þann hátt að það er ekki nógu lögfræðilega gott. Það er svona amatörayfirbragð á því. Líklega þiggur forsætisnefnd þingsins ráð frá þessum aðilum, ég veit það ekki. En þingmenn hafa fullt frelsi til athafna, fullt frelsi til að gera það sem þeir vilja innan þingsins. Ef það verður framtíðin að forseti þingsins ætlar að fara að setja þingmenn niður eða veita þeim eitthvað tiltal, þá erum við ekki lengur búandi í lýðræðisríki.“
Hún sagðist halda að Einar væri að bregðast við æsingi í þinginu og hafi líklega sagt meira en hann hafi ætlað.
Þingsköpum breytt af þverpólitískri nefnd
Vigdís hefur gagnrýnt breytingar á þingsköpum áður, og sagði í morgun að það væri „amatörayfirbragð“ á breytingunum sem gerðar hafi verið á þingskaparlögum undanfarin ár og þær séu ekki nógu „lögfræðilega“ góðar.
Breytingarnar sem gerðar hafa verið á þingsköpum undanfarin ár hafa að mestu komið frá tveimur þverpólitískum nefndum. Sjá má á vef Alþingis að meðal þeirra sem komu á fundi þingskapanefndar veturinn 2010 til 2011 voru Helgi Bernódusson, skrifstofustjóri Alþingis og Þórhallur Vilhjálmsson, yfirlögfræðingur Alþingis.
Vigdís sakaði einnig starfsmenn Alþingis um það á ný í morgun að hafa lekið upplýsingum um hana til fjölmiðla þegar greint var frá bréfi ríkisendurskoðanda til forseta Alþingis þar sem kvartað var undan starfsháttum hennar. Hún segir að þess vegna hafi hún haft áhyggjur af því að samantekt hennar nú læki út, af því að hún hafi fengið starfsmenn Alþingis til að prófarkalesa hana.