Fimm Íslendingar nýttu sér aflandsfélög á Bahama-eyjum. Þeir eiga allir heimilsfesti utan Íslands. Þetta má lesa úr gögnun sem þýska blaðið Süddeutche Zeitung hefur undir höndum og alþjóðleg samtök rannsóknarblaðamanna, ICIJ, hafa unnið úr í samstarfi við 110 fjölmiðla víða um heim. Á meðal þeirra sem vinna úr gögnunum er Reykjavik Media í samstarfi við Morgunútvarpið á Rás 2. Frá þessu er greint á vef RÚV.
Þar segir að ekki sé um jafn ítarleg og Panama-gögnin svokölluðu, sem voru opinberuð í apríl. Þar var um að ræða leka frá lögfræðistofunni Mossack Fonseca, sem sérhæfði sig í uppsetningu aflandsfélaga og þjónustu við þau. Í þeim kom meðal annars fram að hundruð Íslendinga ættu mörg hundruð félög í þekktum skattaskjólum. Á meðal þeirra voru íslenskir ráðamenn og þekktir viðskiptaforkólfar. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þáverandi forsætisráðherra, þurfti að segja af sér embætti eftir að upplýst var um tilurð félag hans og eiginkonu hans, Wintris Inc., hefði heimilisfesti á Tortóla-eyju, geymdi þar á annað milljarð króna í eignum og væri kröfuhafi í bú föllnu bankanna.
Í frétt RÚV segir að íslenskir bankar hafi ekki verið jafn umsvifamiklir á Bahama og þeir voru á Tortóla, höfuðborg Bresku jómfrúareyjanna. Gögnin sýni hins vegar að aflandsþjónusta sem Íslendingar hafa notast við á síðustu árum og áratugum er ekki bundin við einstaka fyrirtæki, banka eða lögmannsstofur. Því staðfesti Bahama-lekinn þann grun að aflandsviðskipti Íslendinga séu enn aðeins upplýst að hluta til.
Stærsta nafnið sem er að finna í Bahama-skjölunum er nafn fyrrverandi samkeppnisstjóra Evrópusambandsins, Neelie Kroes. Hún var valdamikil og viðskiptatímaritið Forbes valdi hana fimm sinnum á lista yfir 100 áhrifamestu konur heims. Þá er nafn Amber Rudd, innanríkisráðherra Bretlands, einnig að finna í þeim.