Helga Dögg Björgvinsdóttir, Jarþrúður Ásmundsdóttir og Þórey Vilhjálmsdóttir hafa allar sagt sig úr Sjálfstæðisflokknum, en þær eru núverandi og tveir síðustu formenn Landssambands sjálfstæðiskvenna.
Þetta tilkynntu þær fyrir skömmu. Þær segja að þær eigi „ekki samleið með flokki sem skilar af sér niðurstöðum úr prófkjöri eins og þeim sem við höfum nýverið séð.“
Undanfarin ár hafi þær varið kröftum sínum og tíma í þágu Sjálfstæðisflokksins og tala fyrir jafnrétti kynjanna þegar kemur að vali í áhrifastöður innan flokksins og kjöri fulltrúa.
„Nú teljum við fullreynt að hreyfa við þeim íhaldssömu skoðunum og gildum sem ríkja um jafnréttismál í Sjálfstæðisflokknum. Ýmis skref hafa verið stigin sem ættu að leiða til aukins jafnréttis kynjanna á síðustu árum. Víðtæk andstaða hefur þó verið gegn því að ganga lengra í að breyta kerfi og ásýnd flokksins í þá veru að konur fáist til þátttöku.“
Mikið hafi verið talað fyrir því að velja „hæfasta einstaklinginn“. Það hafi sannað sig í prófkjörum síðustu vikna að þessi málflutningur sé úreltur og ekki í neinum takti við nútímann, og enn einu sinni hafi komið í ljós að prófkjör skili ekki endilega góðum niðurstöðum „þó að þau séu kannski lýðræðisleg fyrir þann þrönga hóp sem tekur þátt í þeim.“
Ýmsir aðrir stjórnmálaflokkar veigri sér ekki við því að velja þannig á lista að konur fái jöfn tækifæri til ábyrgðar á við karla. „Nema staðan sé sú innan Sjálfstæðisflokksins að allir „hæfustu einstaklingarnir“ séu karlar.“
Helga, Þórey og Jarþrúður segja að þær hafi barist fyrir aukinni ábyrgð kvenna og verið drifnar áfram af „ólýsanlegri bjartsýni og ofurtrú“ á að Sjálfstæðisflokkurinn myndi breytast og beita sér í verki fyrir auknu jafnrétti kynjanna. Þær hafi tekið slagi fyrir konur, haldið fjölda leiðtoganámskeiða og funda, talað fyrir mikilvægi þátttöku kvenna og hvatt flokksmenn til að kjósa konur. Þær hafi mótað og fengið samþykkta jafnréttisstefnu og náð fram breytingum á skipulagsreglum flokksins þar sem jafnrétti kynja sé staðfest sem eitt af grunngildunum.
„Því miður hefur þetta ekki breytt stöðu kvenna innan Sjálfstæðisflokksins ― niðurstöður prófkjara í Suðurkjördæmi og Suðvesturkjördæmi eru áfall fyrir flokkinn. Aðeins ein kona verður oddviti fyrir flokkinn á landsvísu á næsta kjörtímabili sem er óviðunandi. Og nú er sú staða hugsanlega komin upp að engin kona sem kosin var á þing fyrir Sjálfstæðisflokkinn í síðustu þingkosningum muni taka sæti á komandi þingi.“
Þeim séu það mikil vonbrigði að flokkurinn hafi ekki tryggt að staða eins og þessi gæti ekki komið upp aftur. „Nú, á árinu 2016, gerum við þá sjálfsögðu kröfu að konur og karlar hafi sömu tækifæri til að hafa áhrif á mótun löggjafar og stefnu í samfélaginu.“ Af þessari kröfu vilji þær ekki gefa neinn afslátt.
„Í því ljósi og þess sem á undan er gengið eigum við ekki samleið með flokki sem skilar af sér niðurstöðum úr prófkjöri eins og þeim sem við höfum nýverið séð. Það virðist sem svo að engar ráðstafanir hafi verið gerðar til að koma í veg fyrir þá stöðu sem nú er komin upp. Því höfum við tekið ákvörðun um að segja skilið við Sjálfstæðisflokkinn og þær íhaldssömu skoðanir sem þar virðast ríkja.“