Fimm stærstu lögmannsstofur landsins högnuðust um 1.645 milljónir króna samanlagt á síðasta ári. Logos, stærsta lögmannsstofa landsins, hagnaðist langmest, eða um 824 milljónir króna eftir skatta. Hagnaður hennar 2014 hafði verið 616 milljónir króna. Starfsemi stofunnar í London átti stóran þátt í bættri afkomu hennar á milli ára. Hinar fjórar stofurnar eru Lex, BBA Legal, Landslög og Mörkin. Frá þessu er greint í DV í dag.
Afkoma flestra íslenskra lögmannsstofa batnað mikið í kjölfar hrunsins sem varð haustið 2008 vegna aukinna umsvifa í tengslum við gjaldþrot og fjárhagslega endurskipulagningu margra stærstu fyrirtækja landsins.
Logos er stærsta lögfræðistofa landsins og hefur verið í sérflokki þegar kemur að hagnaði árum saman. Stofan hefur meðal annars unnið mikið fyrir erlenda aðila sem átt hafa hagsmuna að gæta á Íslandi, sérstaklega í tengslum við uppgjör gömlu bankanna. Samanlagt hefur Logos hagnast um 5,3 milljarða króna frá bankahruni. Eigendur stofunnar eru 17 talsins. Áætlað er að hver og einn eigandi hafi fengið 48,5 milljónir króna í arð vegna frammistöðu stofunnar í fyrra. Í frétt DV segir að starfsemi Logos erlendis sé ábyrg fyrir um 40 prósent af hagnaði stofunnar. Hagnaður BBA Legal, Landslaga og Markarinnar jókst í fyrra en hann dróst saman hjá Lex og var 146 milljónir króna.