Framboð Davíðs Oddssonar til forseta Íslands kostaði tæplega 28 milljónir króna. Þetta kemur fram í útdrætti úr uppgjöri hans, sem hann hefur skilað til Ríkisendurskoðunar. Það er hæsta upphæðin sem eytt var í kosningabaráttu, af þeim sem eru búnir að skila inn uppgjöri sínu. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, eyddi um 25 milljónum króna í sitt framboð.
Hann fékk ríflega átta milljónir króna frá lögaðilum og einnig frá einstaklingum. Ríflega ellefu milljónir króna komu frá honum sjálfum. 400 þúsund krónur komu frá eiginkonu hans, Ástríði Thorarensen.
Meðal annarra sem gáfu Davíð hámarksframlagið sem einstaklingar mega gefa, 400 þúsund krónur, eru Þórólfur Gíslason kaupfélagsstjóri í Kaupfélagi Skagfirðinga, og Kristján Loftsson útgerðarmaður. Hann fékk tæplega 3,5 milljónir frá 43 öðrum einstaklingum, sem gáfu minna en 200 þúsund krónur.
Kaupfélag Skagfirðinga gaf honum einnig hámarksframlagið 400 þúsund krónur, það gerðu líka Byggingafélag Gylfa/Gunnars, Kjarnafæði, Krossanes eignir, Landsprent, Lýsi, Orbis Invest, Stilling og Brekkuhús ehf.
Þá er talsvert um útgerðarfélög í hópi þeirra sem gáfu honum hámarksupphæð, Einhamar Seafood, Ísfélag Vestmannaeyja, Rammi hf, Þorbjörn hf og ÞR ehf, eru meðal þeirra. ÍSAM, Íslensk Ameríska, gaf einnig 400 þúsund krónur, en félagið er í eigu sömu aðila og Ísfélagið, sem einnig eru stærstu eigendur Morgunblaðsins, þar sem Davíð er ritstjóri.