Framboð Höllu Tómasdóttur til forseta Íslands kostaði tæplega níu milljónir króna, samkvæmt úrdrætti úr uppgjöri hennar, sem hún hefur skilað til Ríkisendurskoðunar.
Halla fékk 3,7 milljónir króna frá lögaðilum og 3,1 frá einstaklingum. Sjálf lagði hún fram um tvær milljónir króna.
Fyrirtækin sem gáfu Höllu hámarksframlagið, 400 þúsund krónur, eru Nes Capital, Tryggingamiðstöðin, Veritas Capital og Ölgerðin. Sextán önnur fyrirtæki gáfu lægri upphæðir, þar á meðal fyrirtæki eins og Valitor, Þorbjörn hf, Vísir hf, Elding og Hvalaskoðun Reykjavíkur.
Fimm einstaklingar gáfu Höllu meira en 200 þúsund krónur. Berglind Björg Jónsdóttir, Guðbjörg Edda Eggertsdóttir og Ragnheiður Jóna Jónsdóttir gáfu 400 þúsund krónur hver, og Guðbjörg Alfreðsdóttir og Guðmundur Steinar Jónsson gáfu 200 þúsund krónur hvort.
Bæði Halla og Davíð Oddsson skiluðu inn uppgjörum sínum til Ríkisendurskoðunar fyrir helgi, líkt og allir frambjóðendur verða að gera. Elísabet Jökulsdóttir, Andri Snær Magnason, Sturla Jónsson og Ástþór Magnússon eiga enn eftir að skila sínum uppgjörum.