Yfirvöld í Sádi-Arabíu hafa varað við „hörmulegum afleiðingum“ eftir lög voru samþykkt í Bandaríkjunum sem eiga að koma í veg fyrir að ríki njóti friðhelgi. Sérstaklega er um að ræða friðhelgi í þeim tilfellum þar sem þau eru ábyrg fyrir hryðjuverkaárásum sem leiða til dauða bandarískra ríkisborgara á bandarískri grund.
Obama varð undir
Barack Obama Bandaríkjaforseti beitti neitunarvaldi í þinginu, þegar frumvarpið var til meðferðar, þar sem hann taldi að það gæti gefið alvarlegt fordæmi til framtíðar litið og opnað fyrir sambærilegar málsóknir gegn Bandaríkjunum. Blaðafulltrúi Hvíta hússins sagði í gær, að þingið hefði gert alvarleg mistök í málinu.
Bandaríkjaþing kaus með miklum meirihluta með því að ógilda neitun Obama. Hefur frumvarpið meðal annars hamlað því að ættingjar fórnarlamba árásarinnar 9. september 2001 geti farið í mál við Sádí-Arabíu sem tengd hafa verið við hryðjuverkin.
Þetta er í fyrsta skipti í forsetatíð Obama sem þessi staða kemur upp. Öldungadeildin hafði áður kosið með ógildingu neitunarinnar með 97 atkvæðum á móti 1 og stuttu seinna kaus fulltrúadeildin um málið og var niðurstaðan 348 á móti 77 atkvæðum. Niðurstaðan var því afgerandi gegn stefnu Obama, alveg þvert á flokkslínur, og greinilegt að bæði Repúblikanar og Demókratar tóku eindregið undir kröfu ættingja þeirra 2.996 sem létust í árásunum 11. september 2001, en 15 af þeim 19 sem komu að skipulagningu hryðjuverkaárásanna komu frá Sádí-Arabíu. Ættingjar hafa í meira en tíu ár krafist þess að fá aðgang að öllum gögnum um atburðina, en hluti af skýrslum sem Bandaríkjastjórn býr yfir hefur ekki enn verið birtur.
Sala á skuldabréfum
Yfirvöld í Sádí-Arabíu hafa alfarið hafnað því að hafa komið að hryðjuverkaárásunum, og sagt að tilgátur um slíkt eigi ekki við nein rök að styðjast.
Viðskiptasamband Bandaríkjanna og Sádí-Arabíu er djúpt og sterkt, og byggir á margra áratuga sambandi þar sem viðskipti með olíu Sádí-Araba eru miðpunkturinn. Þegar umræðan stóðst sem hæst um frumvarpið fyrrnefnda, í apríl á þessu ári, greindu bandarískir fjölmiðlar frá því að yfirvöld í Sádí-Arabíu hefðu hótað því að selja bandarískar eignir, þar á meðal ríkisskuldabréf upp á 117 milljarða Bandaríkjadala, og slíta þannig á hluta þeirra viðskiptatengsla sem eru á milli landanna. Slíkt myndi valda glundroða á fjármálamarkaði, en deildar meiningar eru um hvort það væri yfir höfuð skynsamlegt fyrir Sádí-Araba sjálfa að hrinda slíku í framkvæmd
Hinn 15. apríl á þessu ári greindi New York Times frá hótuninni, og staðfesti Hvíta húsið efni hennar að hluta, en vildi ekki tjá sig í nákvæmisatriðum um hvaða skilaboð komu frá yfirvöldum í Sádí-Arabíu.
Nú þegar niðurstaðan er ljóst í þinginu, hafa yfirvöld í Sádí-Arabíu ítrekað að ef Bandaríkjaþing grípi ekki til aðgerða, sem viðhaldi friðhelginni, þá geti það haft „hörmulegar“ afleiðingar. Hvernig þær munu raungerast verður að koma í ljós.