Gunnar Bragi Sveinsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur falið Byggðastofnun að útfæra tillögur að skattalegum ívilnunum sem eiga að birtast í nýrri byggðaáætlun. „Þær leiðir sem við erum helst að horfa í er lækkun á tryggingargjaldi því lengra sem komið er frá höfuðborgarsvæðinu, lækkun á ferðakostnaði fyrir þá sem sækja vinnu langt að og niðurfellingu á námslánum hjá fólki sem býr á svokölluðum veikum svæðum.“ Þetta kom fram í ræðu hans á ráðstefnunni „Búsetuþróun á Íslandi til ársins 2030“ sem Byggðastofnun og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið stóðu fyrir í vikunni.
Vinna að þingsályktunartillögu um stefnumótandi byggðaáætlun sem á að gilda frá 2017 til 2023 hófst í lok síðasta árs. Áætluninni er ætlað að lýsa stefnu ríkisins í byggðamálum hverju sinni og samhæfingu við aðra stefnumótun og áætlanagerð hins opinberra. Þar sem áætlunin á að gilda í sjö ár, tæp tvö kjörtímabil, á hún að marka stefnu næstu tveggja ríkisstjórna hið minnsta óháð því hverjir sitja í þeim.
Í tilkynningu frá ráðuneyti Gunnars Braga, sem hefur málaflokk byggðamála á sinni könnun, segir að byggðaáætlun skuli „hafa að meginmarkmiði að jafna tækifæri allra landsmanna til atvinnu og þjónustu, jafna lífskjör og stuðla að sjálfbærri þróun byggðarlaga um land allt. Sérstaka áherslu skal leggja á svæði sem búa við langvarandi fólksfækkun, atvinnuleysi og einhæft atvinnulíf.“
Undibúa og móta framtíðina
Á ráðstefnunni voru kynntar niðurstöður sviðsmyndagreiningar á búsetuþróun til ársins 2030. Í fréttatilkynningunni segir: „Sviðsmyndir eru viðurkennd aðferðafræði til að rýna framtíðina, skilja umhverfið og skapa sameiginlegan skilning á því hvað rétt er að gera í dag til að undirbúa og móta framtíðina. Hlutverk sviðsmynda er að gefa okkur hugmynd um hvernig trúverðugar „framtíðir“ gætu litið út. Það er mikilvægt að skilja að við sköpun framtíð okkar með því sem við gerum eða gerum ekki í dag. Því er það rökrétt að reyna að velta því upp hvernig framtíðin gæti litið út, áður en við þurfum að bregðast við. Þar gagnast sviðsmyndir best – til að skilja hvernig framtíðin lítur út áður en þurfum að bregðast við.
Markmið sviðsmynda er ekki að segja fyrir um framtíðina, heldur búa okkur undir það að lifa með óvissunni og skilja í hverju hún felst. Mælikvarði um hvort sviðsmyndir eru góðar eða slæmar felst ekki í því hvernig og hve vel þær rætist í framtíðinni heldur hvort þær leiði til betri ákvarðana í dag.“