Landsbankinn ætlar að leiðrétta lán um þúsund viðskiptavina sinna vegna mannlegra mistaka í útreikningi neysluvísitölu Hagstofu Íslands. Frá þessu greinir bankinn í fréttatilkynningu sem send var fjölmiðlum í dag. Kostnaður bankans vegna þessa nemur „nokkrum tugum milljóna króna“.
Hagstofan greindi frá því á fimmtudag að reiknuð húsaleiga hefði verið vanmetin við útreikning vísitölu neysluverðs, sem mælir verðbólgu. Þessi mistök hafa nú verið leiðrétt með þeim afleiðingum að vísitalan hækkaði um tæp 0.5 prósent á milli mánaða og langt umfram allar opinberar verðbólguspár. Þetta þýðir líka að 12 mánaða verðbólga hefur verið verulega vanmetin undanfarið hálft ár. Ársverðbólga, sem var 0,9 prósent í ágúst, mælist því 1,8 prósent í september.
Mistök Hagstofunnar hafa víðtæk áhrif. Þeir sem tekið hafa ný verðtryggð húsnæðislán á því tímabili sem þau ná yfir munu til að mynda þurfa að greiða uppsafnaðar verðbætur af lánum sínum. Þeir sem tóku lán í septembermánuði munu auk sjá þau hækka hins vegar skarpar en annars hefði orðið. Þeir sem ætla sér að taka verðtryggð húsnæðislán þessa daganna ættu að bíða fram í nóvember hið minnsta svo þeir þurfi ekki að greiða uppsafnaðar verðbætur tímabils sem þeir voru ekki með lán, vegna mistaka Hagstofunnar. Þá mun húsaleiga þeirra sem er bundin við þróun vísitölu neysluverðs hækka um komandi mánaðamót.
Landsbankinn hefur ákveðið að koma til móts við viðskiptavini sína og bera fjárhagslegan kostnað vegna þessara mistaka. „Þeir viðskiptavinir Landsbankans sem yrðu fyrir tjóni vegna þessara mistaka þurfa ekki að hafa áhyggjur af hækkun á lánum sínum,“ segir meðal annars í tilkynningu frá bankanum. Á næstu vikum verður mismunurinn reiknaður út og endurgreiddur inn á höfuðstól lánanna sem um ræðir. Fyrirséð er að einhvern tíma mun taka að framkvæma leiðréttinguna en viðskiptavinir munu fá tilkynningu um innborgunina þegar að henni kemur.
Í tilkynningunni frá bankanum segir enn fremur: „Þrátt fyrir að Hagstofan telji þessi mistök smávægileg þá er ljóst að þau munu valda tjóni hjá þeim sem tóku verðtryggð neytendalán hjá Landsbankanum á því tímabili sem reikningsskekkjan var til staðar. Mikill meirihluti þeirra eru fyrstu kaupendur sem tóku sitt fyrsta íbúðalán hjá bankanum á þessu tímabili.“
„Um 1.000 viðskiptavinir Landsbankans tóku verðtryggð neytendalán á tímabilinu sem um ræðir, einkum verðtryggð íbúðalán. Vanmat á vísitölu neysluverðs, sem nú á að leiðrétta aftur í tímann, mun leiða það af sér að eftirstöðvar verðtryggðra lána sem tekin voru á tímabilinu hækka vegna vísitölubreytinga sem áttu sér stað fyrir lántöku.“
Hjá Arion banka er verið að meta stöðuna og áhrifin af þessum mistökum hagstofunnar og hvernig er rétt að bregðast við því. Hjá Íslandsbanka er ekki búið að taka endanlega ákvörðun um hvaða leiðir á að fara í þessum efnum. Búist er við að ákvörðun muni liggja fyrir á næstu dögum.