Eygló Harðardóttir ákvað, eftir að ljóst var að Sigurður Ingi Jóhannsson yrði formaður Framsóknarflokksins, að hætta við framboð sitt í embætti varaformanns flokksins. Áður en framboðsræður varaformannsefna hófust tilkynnti hún þetta.
Eygló lýsti yfir stuðningi við Lilju Alfreðsdóttur í embættið en þær tvær, auk Vilhelms Úlfars Vilhelmssonar, höfðu lýst yfir framboði til varaformanns. Eygló sagði að það hefði engum dulist að tvær fylkingar hefðu tekist á innan flokksins og að það hafi verið erfitt að starfa innan flokksins. Hún myndi stíga til hliðar því henni þætti eðlilegt að fulltrúi hinnar fylkingarinnar, þeirrar sem studdi Sigmund Davíð, yrði varaformaður flokksins fyrst Sigurður Ingi varð kjörinn.
Kosning til varformanns fer fram með sama hætti og kosning til formanns flokksins og má búast við úrslitum fyrir kvöldmat.
Sigmundur er farinn
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson yfirgaf Háskólabíó þegar niðurstöður úr formannskjörinu lágu fyrir. Blaðamaður mbl.is spurði hann áður en gat ekið af stað í bíl sínum hvað tæki nú við. „Við sjáum bara til,“ sagði Sigmundur.
Sigmundur Davíð skipar efsta sæti framboðslista Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi. Í það sæti fékk hann yfirburðakosningu.
Kjarninn hefur ekki náð tali af Jóhannesi Þór Skúlasyni, aðstoðarmann Sigmundar og fjölmiðlatengilið flokksþingsins, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.