Lilja Dögg Alfreðsdóttir var kjörin varaformaður Framsóknarflokksins á flokksþinginu í dag. Hún hlaut yfirburðakosningu í embættið með 95 prósent greiddra atkvæða. Einn annar var í kjöri, Vilhelm Úlfar Vilhelmsson.
Eygló Harðardóttir hafði áður dregið framboð sitt til baka eftir að ljóst var að Sigurður Ingi Jóhannsson hefði verið kjörinn formaður flokksins. Taldi hún mikilvægt að fulltrúar beggja fylkinga, sem barist hafa innan flokksins undanfarna daga, ættu fulltrúa í forystu flokksins.
Gunnar Bragi Sveinsson dró framboð sitt til ritara flokksins einnig til baka eftir að ljóst var að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hefði tapað formannskosningunum. Hann hefur verið eindreginn stuðningsmaður Sigmundar Davíðs og var eini ráðherra flokksins sem lýsti yfir stuðningi við hann í yfirlitsræðum ráðherra á flokksþinginu í gær. Gunnar Bragi segist nú ætla að einbeita sér að kosningabaráttunni fyrir norðan þar sem hann skipar fyrsta sæti á lista Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi. Jón Björn Hákonarson er því sjálfkjörinn ritari flokksins.
Kjarninn náði tali af Jóhannesi Þór Skúlasyni, aðstoðarmanni Sigmundar Davíðs og fjölmiðlatengilið vegna flokksþingsins, fyrir stundu og óskaði eftir samtali við Sigmund Davíð. Jóhannes sagðist ekki búast við því að Sigmundur myndi tjá sig í dag.
Þegar Sigmundur Davíð yfirgaf flokksþingið í dag, eftir að úrslitin voru ljós, sagði hann við fjölmiðla að niðurstaðan væru vonbrigði. Honum var svo ekið á brott.