Sigurður Ingi Jóhannsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson fluttu framboðsræður sínar á flokksþingi Framsóknarflokksins nú um klukkan 13 í dag. Um leið og ræðunum sleppti hófst kosningin. Formaður kjörstjórnarinnar sagðist ekki þora að meta hversu langan tíma kosningarnar muni taka.
Sigurður Ingi talaði á undan og fjallaði í meginatriðum um það sama og hann talaði um í gær; Ef flokknum ætti að vegna vel í kosningunum þyrfti fólk að kjósa flokkinn. Hann vitnaði í skoðanakannanir sem sýna að fleiri muni kjósa flokkinn ef nýr formaður verði kosinn í flokkinum. Sigurður Ingi skaut föstum skotum að Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni í ræðunni og sagði það undir rós að formaðurinn hafi lent á vegg í baráttu sinni eftir að Panamaskjölin afhjúpuðu eignarhald hans í félagi í skattaskjóli.
„Sumir segja að allt sem sé ekki bannað sé leyfilegt,“ sagði hann. „Framsóknarflokkurinn hefði mun breiðari skískotun ef skipt verður um forystu. Ég hef aldrei litið svo á að þeir sem kjósa ekki Framsóknarflokkinn eru ekki óvinir flokksins,“ sagði Sigurður Ingi.
Sigmundur Davíð talaði blaðlaust í sinni framboðsræðu. Hann lagði áherslu á að Framsóknarmenn þyrftu að fylkja liði og standa saman í kosningunum til þess að ná árangri. Það yrði hans fyrsta verk ef hann hlýtur áframhaldandi umboð til þess að leiða flokkinn að sameina hann og koma á sáttum.
Jafnframt segist hann aldrei hafa fundið fyrir eins miklum stuðningi og undanfarið. Hann segist heyra það ítrekað að fólk komi til hans og segi: „Ekki gefast upp. Þið gefist ekki upp núna fyrir lúalegum brögðum. Látið ekki fella ykkur á slíku.“ Framsóknarflokkurinn sé auðvitað prinsippflokkur og fólkið sem sé „að fara að kjósa okkur er fólkið sem telur að stjórnmál eigi að snúast um prinsipp.“ Hann ætlar að reyna að bæta flokkinn og sjálfan sig. Hann sé ekki gallalaus og að hann muni vinna að því á hverjum degi að bæta sig á þeim sviðum sem uppá vantar styrk.
Fulltrúar á flokksþinginu ganga nú til kosninga. Ekki er ljóst hvenær niðurstöður liggja fyrir en samkvæmt dagskrá áttu framboðsræðurnar að hefjast kl. 11: 30. Næsti liður á dagskránni átti að hefjast kl. 12:30 svo gera má ráð fyrir að þetta ferli muni taka um tvær klukkustundir. Til þess að ná kjöri þarf nýr formaður að fá minnst helming atkvæða í embættið. Þess vegna gæti farið að kjósa þurfi aftur þar til annar nýtur stuðnings meirihluta flokksþingsfulltrúa.