Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins, ætlar ekki að hætta í Framsóknarflokknum og verður áfram oddviti flokksins í Norðausturkjördæmi í komandi kosningum. Þetta er fullyrt í Morgunblaðinu í dag. Þar segir einnig að tal um að Sigmundur Davíð og hugsanlega Gunnar Bragi Sveinsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, myndu kljúfa Framsóknarflokkinn eigi ekki við rök að styðjast.
Sigmundur Davíð tapaði naumlega fyrir Sigurði Inga Jóhannssyni í formannskosningu á flokksþingi Framsóknarflokksins um helgina. Hann gekk út af flokksþinginu á meðan að sigurræða Sigurðar Inga stóð yfir og hefur ekki gefið nein viðtöl eftir tapið. Í Fréttablaðinu í dag segir Sveinn Hjörtur Guðfinnsson, formaður Framsóknarfélagsins í Reykjavík og yfirlýstur stuðningsmaður Sigmundar Davíðs, að svindlað hafi verið í formannskjörinu. Sveinn Hjörtur hélt þessu líka fram á Útvarpi Sögu í gær. Sveinn Hjörtur segir að nokkrir skráðir þingfulltrúar í Reykjavík hafi ekki verið með kosningarétt á þinginu og bætir því við að fjöldi manns hafi sagt sig úr Framsóknarflokknum í gær. Hann ætlar að kanna málið betur og kalla í kjölfarið saman stjórn Framsóknarfélagsins í Reykjavík.
Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknarflokks og flugvallarvina, er líka yfirlýstur stuðningsmaður Sigmundar Davíðs. Hún tekur undir orð Sveins Hjartar og segir við Fréttablaðið að um helgina hafi „flokkseigendafélagið og fjármagnsöflin“ tekið völdin af grasrót Framsóknarflokksins um helgina. Guðfinna segir einnig að Sigmundur Davíð hafi lengi átt sér óvini innan flokks og fullyrðir að hann hefði unnið sigur í allsherjarkosningu, hefðu allir sem voru á þinginu fengið að kjósa.