Vefurinn Gestur.is hefur nú göngu sína. Hann er frétta- og upplýsingavefur um ferðaþjónustu og er sérstaklega ætlaður fyrir þá tugi þúsunda sem starfa í ferðaþjónustu á Íslandi þótt hann muni auðvitað gagnast öllum sem áhuga á hafa. Um er að ræða systurvef Kjarnans sem hefur sína eigin sjálfstæðu ritstjórn.
Á Gestur.is munu safnast saman upplýsingar um ferðaþjónustugeirann sem er nú að finna víða á netinu og hjá mörgum mismunandi stofnunum eða samtökum. Þær upplýsingar verða gerðar aðgengilegar á Gestur.is auk þess sem fréttir verða unnar úr þeim. Þá mun Gestur.is fylgjast vel með nýsköpun og þróun í ferðaþjónustu og með breytingum á regluumhverfi og pólitískum áherslum.
Gestur.is verður bæði á íslensku og ensku til að auka notagildi hans og gera hann aðgengilegan þeim sem áhuga hafa á íslenskri ferðaþjónustu en tala ekki íslensku.
Ritstjóri Gestur.is er Sara McMahon. Hún hefur áralanga reynslu sem blaðamaður og skrifum tengdum ferðaþjónustu.
Vefurinn mun vaxa og dýpka hratt á næstu misserum. Í náinni framtíð verður boðið upp á fréttapóst sem áhugasamir geta fengið sendan í pósthólf sitt tvisvar í viku. Þá er unnið að því að setja upp mælaborð með helstu stærðum og breytum í ferðaþjónustu.
Eigendur Gestur.is eru Kjarninn miðlar ehf., sem á meirihluta, og Magnús Orri Schram.
Áhugasamir sem vilja koma á framfæri ábendingum eða tilkynningum geta gert það með því að senda póst á netfangið ritstjorn@gestur.is