Árvakur hf., útgefandi Morgunblaðsins og mbl.is, hefur keypt allan útvarpsrekstur Símans, það er útvarpsstöðvarnar K100 og Retro. Þá hefur fyrirtækið keypt allt hlutafé í Eddu - útgáfu, sem gefur meðal annars út Andrésblöð og Syrpu.
Þetta var kynnt á starfsmannafundi hjá Árvakri í dag, og greint er frá þessu á mbl.is.
Þá var einnig greint frá tapi Árvakurs í fyrra, en það var tæplega 164 milljónir króna. „Eins og tölurnar bera með sér var reksturinn mjög þungur í fyrra. Árið byrjaði ágætlega, en þegar leið fram á vorið hófust kjaradeilur sem höfðu mikil áhrif á andrúmsloftið á auglýsingamarkaði. Auglýsendur kipptu að sér höndum eins og yfirleitt gerist við slíkt óvissuástand og tekjurnar duttu niður. Við þetta bættist svo að samið var um miklar hækkanir í kjarasamningum og voru þær töluvert umfram áætlanir okkar. Gróflega má segja að hvor þessara þátta skýri um helming tapsins,“ er haft eftir Haraldi Johannessen, framkvæmdastjóra Árvakurs og ritstjóra Morgunblaðsins, á mbl.is.
Hann segir að líkur séu á hallarekstri í ár þó reksturinn sé mun betri það sem af er ári en síðasta ár. Rekstrartekjur fyrirtækisins námu tæpum 3,2 milljörðum á árinu 2015 og aðrar tekjur 128 milljónir. Rekstrarkostnaður nam tæpum 3,3 milljörðum og afskriftir námu tæplega 100 milljónum króna. Að meðaltali voru 184 starfsmenn og 500 blaðberar.
Árvakur hefur einnig ákveðið að opna tvær nýjar vefsíður sem verða reknar undir hatti mbl.is. Sjávarútvegsvefurinn 200 mílur hefur þegar tekið til starfa og í síðari hluta mánaðarins mun fara í loftið matarvefur.
Tapið tæplega 1,5 milljarðar frá 2009
Árvakur hefur tapað umtalsverðum fjárhæðum á undanförnum árum. Rekstrartap félagsins var 667 milljónir króna árið 2009. Árið eftir tapaði það 330 milljónum króna alls og árið 2011 nam tapið 205 milljónum króna. Tapið 2012 var 47 milljónir króna. Árið 2013 skilaði Árvakur sex milljóna króna hagnaði en 2014 var reksturinn aftur kominn öfugu megin við núllið. Þá tapaði félagið 42 milljónum króna.
Tap Árvakurs frá 2009, þegar uppistaðan í núverandi eigendahópi eignaðist félagið, og til loka síðasta árs nemur tæplega 1,5 milljörðum króna.