Steven Woolfe, Evrópuþingmaður fyrir Breska sjálfstæðisflokkinn UKIP og frambjóðandi til formanns flokksins, er nú alvarlega slasaður á spítala. Hann hné niður í Evópuþinginu í Strasbourg í morgun eftir að hafa lent í slagsmálum við annan Evrópuþingmann flokksins.
Nigel Farage, sem tímabundið er formaður flokksins, segir að Woolfe hafi lent í átökum á þingflokksfundi Evrópuþingmanna UKIP í morgun. Í kjölfarið hafi hann svo misst meðvitund og ástand hans sé alvarlegt. Daily Mail segir að þingmaðurinn sem kýldi Woolfe sé Mike Hookem.
Woolfe tilkynnti í gær að hann hygðist gefa kost á sér sem formaður flokksins, eftir að Diane James hætti sem formaður eftir innan við mánuð í starfi.
Annar Evrópuþingmaður flokksins, Roger Helmer, sagði við breska ríkisútvarpið BBC að atvikið hefði átt sér stað eftir „líflegar umræður“ á fundinum í morgun.
Sky News segir að grunur leiki á að blætt hafi inn á heila Woolfe og að hann sé í lífshættu. Samkvæmt heimildum Sky yfirgáfu Woolfe og annar þingmaður fundinn, þar hafi hinn þingmaðurinn kýlt Woolfe í andlitið og hann hafi rekið höfuðið í járnhandrið. Þeir hafi svo farið aftur inn á fundinn, en það hafi ekki verið fyrr en nokkru síðar að Woolfe féll í gólfið frammi á gangi.