Hæstiréttur Íslands dæmdi í dag alla níu sakborninganna í stóra markaðsmisnotkunarmáli Kaupþings seka. Refsing sex sakborninga var ákveðin sú sama og í héraði, refsing eins var þyngd en tveimur var ekki gerð sérstök refsing.
Ingólfur Helgason hlaut þyngstan dóm í málinu, fjögurra og hálfs árs fangelsi. Bjarki H. Diego hlaut tveggja og hálfs árs dóm, Einar Pálmi Sigmundsson tveggja ára skilorðsbundinn dóm og Birnir Sær Björnsson og Pétur Kristinn Guðmarsson fengu báðir 18 mánaða skilorðsbundinn dóm. Sigurður Einarsson fékk eins árs hegningarauka við þann fjögurra ára dóm sem hann hlaut í Al Thani-málinu. Magnúsi Guðmundssyni og Björk Þórarinsdóttur var ekki gerð sérstök refsing fyrir þau brot sem þau voru dæmd fyrir.
Refsing Hreiðars Más Sigurðssonar, fyrrverandi forstjóra Kaupþings, var þyngd og honum gerður sex mánaða hegningarauki. Hægt er að lesa dóm Hæstaréttar hér.
Í málinu, sem kallað hefur verið stóra markaðsmisnotkunarmál Kaupþings, voru níu fyrrverandi starfsmenn Kaupþings ákærðir. Þau níu sem voru ákærð eru Sigurður Einarsson, fyrrum starfandi stjórnarformaður Kaupþings, Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, Magnús Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings í Lúxemborg, Ingólfur Helgason, fyrrverandi forstjóri Kaupþings á Íslandi, Bjarki Diego, fyrrverandi framkvæmdastjóri útlána, Einar Pálmi Sigmundsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri eigin viðskipta Kaupþings, Pétur Freyr Guðmarsson, fyrrverandi starfsmaður eigin viðskipta, Birnir Sær Björnsson, fyrrverandi starfsmaður eigin viðskipta, og Björk Þórarinsdóttir, sem sæti átti í lánanefnd Kaupþings. Bjarki og Björk voru ákærð fyrir umboðssvik í málinu, ekki markaðsmisnotkun.
Í málinu var hinum ákærðu gefið að sök að hafa ýmist komið í veg fyrir eða hægt á lækkun á verði hlutabréfa í Kaupþingi, frá hausti 2007 og fram að falli bankans haustið 2008, og aukið seljanleika þeirra með „kerfisbundnum“ og „stórfelldum“ kaupum, eins og segir í ákæru, í krafti fjárhagslegs styrks bankans.
Stærð og umfang málsins á sér ekki hliðstæðu hér á landi. Aðalmeðferð þess í héraðsdómi Reykjavíkur tók 22 daga og yfir 50 manns voru kallaðir til sem vitni á meðan að hún stóð yfir. Það liðu fimm vikur frá því að aðalmeðferð í málinu lauk og þangað til að dómur fékkst.
Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu 26. júní í fyrra að Hreiðar Már, Sigurður, Ingólfur, Einar Pálmi, Birnir Snær, Pétur Kristinn og Bjarki væru sekir í málinu. Bjarki var einungis dæmdur vegna ákæru fyrir umboðssvik. Tveimur liður ákæru á hendur Magnúsi var vísað frá en að öðru leyti var hann sýknaður af þeim sökum sem á hann voru bornar. Björk var sýknuð af ákærðu um umboðssvik í málinu. Í Hæstarétti var Magnús sakfelldur fyrir hlutdeild í markaðsmisnotkun og fyrir hlutdeild í umboðssvikum. Björk var sakfelld fyrir ónothæfa tilraun til umboðssvika vegna einnar lánveitingar.
Í september voru Hreiðar Már og Guðný Arna Sveinsdóttir, fyrrverandi fjármálastjóri Kaupþings, hafa verið ákærð af héraðssaksóknara fyrir umboðs- og innherjasvik. Í ákæru þess máls kom fram að ef Hreiðar Már yrði sýknaður í stóra markaðsmisnotkunarmálinu yrði fallið frá ákærunni um innherjasvik. Hægt er að lesa um þá ákæru hér.
Fréttinni var breytt klukkan 15:34.
Í upphaflegri frétt RÚV, sem birtist áður en að dómur Hæstaréttar var birtur á vefnum, kom fram að sjö hefði verið sakfelldir. Kjarninn byggði sína frétt á þeim upplýsingum. Það reyndist ekki rétt og hefur fréttin nú verið lagfærð í samræmi við dóminn.