Fjármögnun á byggingu fimm stjörnu Marriott EDITION hóteli sem mun rísa við hlið Hörpu er lokið. Hótelið á að opna í lok árs 2018. Félag hefur verið stofnað utan um eign og rekstur hótelsins. SÍA III, framtakssjóður í rekstri sjóðstýringafyrirtækisins Stefnis, á 37,5 prósent í því félagi og greiðir fyrir þann hlut 15 milljónir dali, eða um 1,7 milljarð króna. Því er heildarfjárfestinging sem sett verður í verkefnið tæplega 4,6 milljarðar króna. Hluthafar SÍA III eru íslenskir lífeurisjóðir, fjármálafyrirtæki og fagfjárfestar.
Auk SÍA III munu innlendir einkafjárfestar og lífeyrissjóðir eiga 42,5 prósent hlut. Samkvæmt upplýsingum Kjarnans eru einkafjárfestar með meirihluta þeirrar fjárfestingar. DV greindi frá því í lok september að Hreggviður Jónsson, fjárfestir og stjórnarformaður Festis, væri að skoða að fjárfesta í verkefninu. Lífeyrissjóðirnir sem vitað er að taki þátt eru þrír stærstu sjóðir landsins: Lífeyrissjóður verslunarmanna (LV), Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR) og Gildi-lífeyrissjóður. Til viðbótar eru erlendir fjárfestar með 20 prósent hlut í verkefninu. Á meðal þeirra eru bandaríska fyrirtækið Carpenter & Company, sem festi kaup á lóðinni undir hótelið í fyrra.
Nýr snertiflötur við erlenda ferðamenn
Í tilkynningu frá Stefni, sjóðstýringafyrirtækis í eigu Arion banka sem rekur SÍA III sjóðinn, vegna fjármögnunar verkefnisins, segir að Marriott International, sem mun sjá um rekstur hótelsins, reki í dag yfir 5.700 hótel í 110 löndum. Það muni, í krafti reynslu sinnar , setja mark sitt á íslenskan hótelmarkað. „Yfir 85 milljónir ferðalanga eru aðilar að fríðindakerfi Marriott og því verður til nýr snertiflötur íslensk ferðamannaiðnaðar við erlenda ferðamenn.“
Richard Friedman, forstjóri Carpenter & Copmany, segist afar spenntur fyrir því að þessum áfanga sé náð. „Undirbúningur byggingar fyrsta alþjóðlega fimm stjörnu hótelsins á Íslandi er nú í fullum gangi. Við munum sjá til þess, ásamt íslenskum samstarfsaðilum okkar arkitektum og verktökum, að hótelið taki mið af einstakri staðsetningu þess við hlið Hörpu.“
Arnar Ragnarsson, sjóðsstjóri SÍA III, telur að verkefnið hafi mikla sérstöðu á íslenskum hótelmarkaði vegna þess að um verði að ræða fimm stjörnu hótel „byggt og hannað af teymi með mikla reynslu af sambærilegum verkefnum og rekið af Marriott, stærsta hótelrekstraraðila í heimi.“