Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, telur það ekki raunhæft að ríkisstjórnarsamstarf flokks hans og Framsóknarflokks haldi áfram eftir komandi kosningar, þar sem að fylgi þeirra verði að öllum líkindum ekki nægt til að mynda tveggja flokka ríkisstjórn. „Það virðist ekki vera möguleiki að þessir tveir flokkar saman myndi einir ríkisstjórn og þá verður maður að vera opinn fyrir öllum öðrum kostum, maður verður bara að beita einhverju raunsæi,“ sagði Bjarni í þættinum Forystusætinu á RÚV í gærkvöldi.
Þar sagði Bjarni að aðstæður í stjórnmálum væri mjög óvenjulegar. Fyrir honum væri alltaf fyrsti kostur að mynda tveggja flokka stjórn, mörg erfið mál komi upp á hverju kjörtímabili og eftir því sem flokkarnir í stjórn verði fleiri verði sérsjónarmiðin magnaðri. Það geti leitt til stjórnarfalls.
Samkvæmt nýjustu Kosningaspá Kjarnans munu sjö flokkar fá yfir fimm prósenta fylgi og myndu því geta náð inn kjördæmakjörnum þingmönnum í kosningunum þann 29. október næstkomandi. Það stendur þó tæpt hjá Bjartri framtíð, sem hefur mælst með 5,1 prósenta fylgi í tveimur kosningaspám í röð. Miðað við stöðuna í dag geta engir tveir flokkar myndað tveggja flokka ríkisstjórn. Þeir flokkar sem eru næst því eru Sjálfstæðisflokkur og Píratar, en forsvarsmenn beggja flokka hafa sett mikinn fyrirvara við hinn og ólíklegt verður að teljast að þeir vinni saman að loknum kosningum.
Einu sinni á lýðveldistímanum hefur það gerst að sjö flokkar nái kjöri á Alþingi, en það var árið 1987. Þá voru klofningsframboð frá bæði Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki í framboði og fengu menn inn á þing. Borgaraflokkurinn, undir forystu Alberts Guðmundssonar, náði sjö mönnum inn á þing. Þá fengu Samtök um jafnrétti og félagshyggju einn mann kjörinn í eina kjördæminu sem boðið var fram í, Norðurlandi eystra, en það var Stefán Valgeirsson. Samtök um jafnrétti og félagshyggju var sérframboð hans, en hann hafði áður verið lengi þingmaður fyrir Framsóknarflokkinn, rétt eins og Albert hafði lengi verið þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Í þessum kosningum náði Kvennalistinn einnig að tvöfalda fylgi sitt frá kosningunum 1983, og fékk sex þingkonur inn.